Bandaríski framtakssjóðurinn General Atlantic hefur náð samkomulagi um kaup á ráðandi hlut í dönsku samlokukeðjunni Joe & the Juice. Financial Times greinir frá.
General Atlantic fjárfesti fyrst í Joe & the Juice fyrir sjö árum og átti um 30% hlut í félaginu. Eftir viðskiptin nemur eignarhlutur framtakssjóðsins tæplega 90%. Meðal seljenda í viðskiptunum er sænska fjárfestingarfélagið Valedo Partners.
Skyndibitakeðjan er metin á um 600 milljónir dala eða um 86 milljarða íslenskra króna í viðskiptunum, samkvæmt heimildum FT.
Í kjölfar viðskiptanna verður hluti af skuldum Joe & the Juice greiddur niður. Jafnframt verður lagt félaginu til fjármagn til að styðja við útrás á fleiri erlenda markaði, þar á meðal í Bandaríkjunum.
Í umfjöllun danska viðskiptamiðilsins Børsen segir að velta félagsins hafi numið 1,7 milljörðum danskra króna, eða um 35 milljörðum íslenskra króna, árið 2022 sem samsvarar 50% aukningu á milli ára. Félagið hafi hins vegar tapað 260 milljónum danskra króna eða um 5,3 milljörðum íslenskra króna. Á síðustu fimm árum hefur félagið tapað einum milljarði danskra króna eða yfir 20 milljörðum íslenskra króna.
Rekstraraðili Joe & the Juice á Íslandi er Joe Ísland ehf. sem er í 87% eigu Eyju fjárfestingarfélags VI, sem er í eigu Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur. Þá á RE22 ehf., í eigu Jóns Björnssonar, 13% hlut í Joe Íslandi.
Íslenska rekstrarfélagið, sem rekur 11 veitingastaði undir hatti Joe & the Juice, velti 1,4 milljörðum króna árið 2022 og hagnaðist um 17 milljónir.