Launavísitalan var að meðaltali 9,8% hærri í fyrra en árið áður og hefur ekki hækkað svo mikið á milli ára síðan 2016. Kaupmáttur launa jókst hins vegar aðeins um 1% og hefur sjaldan á síðastliðnum áratug aukist jafn lítið. Lægstu laun hafa hækkað hlutfallslega mest frá gerð Lífskjarasamninganna. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem birt var í dag.
Eina árið frá 2015 sem kaupmáttur hefur aukist minna milli ára er árið 2022, eins og sjá má á eftirfarandi grafi.
„Vísitala kaupmáttar hefur því haldist nokkuð stöðug síðustu árin þótt launavísitalan hafi hækkað hratt. Launin hafa þannig lítið annað gert en að halda í við verðlagið, en á sama tíma átt þátt í að viðhalda því,“ segir í Hagsjánni.
Kaupmáttaraukningin langtum mest hjá tekjulægstu hópunum
Bent er á að laun hafi hækkað mismikið eftir starfsstéttum og atvinnugreinum síðustu ár, og heildarhækkun frá gerð Lífskjarasamninganna í mars 2019 fram til síðastliðins októbermánaðar borin saman samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar.
Á því tímabili hafa laun verkafólks og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkað um 51-52% á meðan laun stjórnenda hafa hækkað um rúm 28% og sérfræðinga um tæp 35%. Í miðjunni sitja svo tæknar og sérmenntaðir, iðnaðarmenn og skrifstofufólk með 38-41% hækkun.
Séu þessar hækkanir skoðaðar á föstu verðlagi kemur í ljós að kaupmáttur fyrstnefndu hópanna tveggja hefur aukist um 16,9% á meðan kaupmáttur stjórnenda hefur dregist lítillega saman og hann aukist um 3,7% hjá sérfræðingum, en 7,5% að meðaltali hjá áðurnefndum „miðju“-hópum.
Tekið skal fram að útreikningar á sundurliðun kaupmáttarbreytinga eru blaðamanns og koma ekki fram í Hagsjánni.
„Þessi munur á launaþróun ólíkra starfstétta og atvinnugreina er ekki tilviljun. Á tímabilinu sem hér er til skoðunar hefur markmið kjarasamninga, sérstaklega lífskjarasamninganna, verið að hækka hlutfallslega mest laun þeirra launalægstu, svo sem með krónutöluhækkunum og þaki á launahækkanir. Á sama tíma hefur verið kröftug eftirspurn eftir starfsfólki í greinum tengdum ferðaþjónustunni, svo sem gisti- og veitingarekstri, sem ýtir sérstaklega undir launahækkanir í þeim geira, og minnst eftirspurn eftir starfsfólki í fjármála- og tryggingastarfsemi. Um þessar mundir virðist eftirspurn eftir starfsfólki þó mest í byggingariðnaði og næstmest iðnaði og framleiðslu,“ segir því næst.
Þó er bent á að hlutfallsleg launaþróun ólíkra hópa hafi verið nokkuð jafnari eftir síðustu kjaraviðræður en árin á undan.
„Í lok janúar losna kjarasamningar á stærstum hluta vinnumarkaðarins eftir stutt samningstímabil. Enn ríkir mikil óvissa um framhaldið og útlit fyrir að viðræður Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stærstu félaga ASÍ séu í hnút þótt þær hafi á tímabili virst ganga vel,“ segir svo að lokum.