Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um listamannalaun sem felur í sér að kostnaður kerfisins muni aukast um hundruð milljóna króna.

Varanleg aukning í málaflokkinn kæmi til framkvæmda í skrefum á árunum 2025–2028 með svofelldum hætti:

  • 2025: 124 milljónir króna
  • 2026: 280 milljónir króna
  • 2027: 490 milljónir króna
  • 2028: 700 milljónir króna

Kostnaður kerfisins í ár er áætlaður um 860 milljónir króna. Ekki er tekið fram í greinargerð frumvarpsins hvað áætlað sé að heildarkostaður kerfisins verði með þessum breytingum.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að með frumvarpinu séu lagðar til breytingar í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum, að unnið skuli að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna með sérstakri áherslu á að starfslaunin tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar.

Mánaðarlegum starfslaunum fjölgar um 1.250

Gert er ráð fyrir að mánaðarlegum starfslaunum sem koma til úthlutunar árlega fjölgi úr 1.600 í 2.850 eða samtals um 1.250 mánuði. Samhliða er þremur nýjum sjóðum bætt við kerfið; Launasjóði kvikmyndahöfunda, Vexti sjóði 35 ára og yngri og Vegsemd sjóði listamanna 67 ára og eldri.

Í tilkynningunni er segir að fjöldi starfslauna hafi haldist óbreyttur í 15 ár eða frá því að gildandi lög tóku gildi árið 2009.

Fjölgun mánaðarlegra starfslauna felur í sér breytingu um 673 milljóna króna árlegan kostnaðarauka á verðlagi fjárlaga 2024.

„Að auki má gera ráð fyrir nokkurri aukningu á umsýslukostnaði starfslaunakerfisins, í ljósi tilkomu nýrra sjóða, og því er reiknað með að árlegt viðbótarframlag í málaflokkinn nemi 700 milljónir þegar breytingarnar verða komnar að fullu til framkvæmda,“ segir í greinargerðinni.

Fram kemur að listamannalaun hafi hækkað um 4,6% í úthlutun ársins 2022. Samhliða hafi verið sett sérstök 100 milljón króna hækkun samkvæmt fjárlögum ársins 2022 til að hækka listamannalaun. Með því hækkaði hver mánaðargreiðsla um 62.500 krónur og voru listamannalaun 490.920 krónur á mánuði það ár. Starfslaun voru 507.500 krónur árið 2023 og eru 538.000 krónur í ár.