Xu Feihong, sendiherra Kína á Indlandi, hefur sagt að kínversk stjórnvöld mótmæli þeim háu tollum sem Donald Trump hafi lagt á Indland og kallar eftir auknu samstarfi milli Indlands og Kína.

Á vef BBC er vitnað í Xu þar sem hann líkir aðgerðum Bandaríkjastjórnar við einelti og segir að þjóðin hafi lengi notið góðs af fríverslun en noti nú tolla sem spil til að krefjast óhóflega hás verðs frá öðrum þjóðum.

Fyrr í þessum mánuði lagði Trump 25% aukatolla á Indland ofan á þá 25% tolla sem voru til staðar fyrir kaup á rússneskri olíu og rússneskum vopnum. Nýjustu tollarnir taka gildi 27. ágúst nk.

Aukinn innflutningur indversku ríkisstjórnarinnar á rússneskri hráolíu frá því að stríðið í Úkraínu hófst hefur valdið spennu í samskiptum Indlands og Bandaríkjanna. Kaupin hafa einnig haft áhrif á samningaviðræður um mögulegan verslunarsamning.

Indverjar hafa hins vegar haldið því fram að, sem stór orkunotandi, verði þjóðin að kaupa ódýrustu fáanlega hráolíu til að vernda milljónir fátækra Indverja gegn hækkandi kostnaði. Þar að auki hafa Indverjar bent á að ríkisstjórn Bidens hefði sagt Indlandi að kaupa rússneska olíu til að koma á stöðugleika á alþjóðlegum orkumarkaði.