Eitt dýrasta einbýlishúsið, sem hefur gengið kaupum og sölu hér á landi, er Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi. Eiríkur Sigurðsson, sem kenndur hefur verið við 10/11 og verslunina Víði, byggði húsið ásamt konu sinni Helgu Gísladóttur, sem var þinglýstur eigandi. Samkvæmt Þjóðskrá er byggingarárið 2008. Í kjölfar falls viðskiptabankanna og erfiðleikanna sem fylgdu í kjölfarið í íslensku efnahagslífi settu hjónin eignina á sölu, þar sem hún var frá 2013-2015. Ásett verð var í kringum 350-400 milljónir en þá var eignin á byggingarstigi 4, sem er fokheld bygging.

Skúli Mogensen keypti húsið í lok árs 2015 í gegnum félagið Kotasælu ehf. Samkvæmt heimildum var verðið rúmar 300 milljónir króna. Skúli keypti síðan húsið af Kotasælu ehf. sumarið 2018, nokkrum mánuðum fyrir gjaldþrot flugfélagsins Wow air . Arion banki tók húsið yfir í skuldauppgjöri í september 2020 á 550 milljónir króna og tveimur mánuðum seinna keypti Davíð Helgason, oftast kenndur við Unity , húsið á 563 milljónir króna.

Að auki keypti Davíð þrjár lóðir við hlið hússins, þar á meðal eina sjávarlóð. Kaupverðið lóðanna nam 500 milljónum króna. Þetta eru þó ekki endilega dýrustu lóðakaupin á svæðinu. Við Sæbraut 13 stóð 264 fermetra einbýlishús sem var byggt fyrir 1980. Árið 2006 keyptu hjónin Jón Halldórsson, sonur Halldórs H. Jónssonar arkitekts, og Ingigerður Jónsdóttir húsið og létu rífa það. Þau byggðu nýtt 400 fermetra glæsihýsi á lóðinni. Lóðin og niðurrif hússins kostaði um 105 milljónir króna sem eru í kringum 220 milljónir króna á núvirði.

Hrólfsskálavör 2 var dýrasta einbýlishúsið þar til í byrjun mars er Jónas Hagan seldi 370 fermetra hús við Fjölnisveg 9 á 690 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .