Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (SÍ) birti fyrir helgi tilkynningu þess efnis að líftryggingafélaginu NOVIS hafi verið bannað tímabundið að gera nýja tryggingarsamninga hér á landi. Í tilkynningu fjármálaeftirlits SÍ kemur fram að ákvörðun um bannið hafi verið tekin af Seðlabanka Slóvakíu en NOVIS er slóvakískt félag. Viðskiptablaðið fjallaði um málið á föstudaginn .

Hefur slóvakíska félagið nú sent frá sér yfirlýsingu, þar sem fullyrðingum er koma fram í tilkynningu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands fyrir helgi er vísað á bug. Ennfremur er þess krafist að fjármálaeftirlitið leiðrétti tilkynninguna á heimasíðu sinni.

NOVIS Insurance Company Inc. er ekki undir neinum takmörkunum af hálfu Seðlabanka Slóvakíu um að selja nýjar vátryggingar á Íslandi eða annarsstaðar á starfssvæði félagsins og öll starfsemi NOVIS er lögleg og án hindrana," segir í yfirlýsingunni, sem undirrituð er af Siegfried Fatzi , stjórnarformanni NOVIS .

Í yfirlýsingunni er fullyrt að fjárhagur NOVIS sé traustur og að félagið geti að fullu sinnt viðskiptavinum sínum í samræmi við þá vátryggingasamninga sem þeir hafi hjá félaginu.

„Það virðist á hinn bóginn vera uppi misskilningur um ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu að fylgjast með fjárfestingareignum sem NOVIS hefur í vörslu og samsvarandi skýrsluskilum frá NOVIS sem félagið fylgir í einu og öllu. Vátryggingatakar NOVIS eru öruggir, hafa fullgildar vátryggingar og geta treyst viðskiptum sínum við vátryggingafélag sem hefur fullgilt starfsleyfi og fjárhagslega burði til að standa við allar sínar skuldbindingar."

Í tilkynningu frá Tryggingum og ráðgjöf, sem séð hefur um sölu á tryggingum frá Novis hér á landi, kemur fram að svo virðist sem fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi misskilið yfirlýsingu Seðlabanka Slóvakíu um NOVIS . Umrædd ákvörðun slóvakíska bankans sé eftirlitsákvörðun, þ.e. NOVIS sendi reglulega skýrslur til Seðlabankans í Slóvakíu um fjárfestingaeignir og lausafjárstöðu á móti endurkaupsvirði útgefinna tryggingasamninga. Fullyrt er að NOVIS hafi fylgt þessu vandlega eftir. „Allar skýrslur NOVIS hafa verið mótteknar athugasemdalaust af hálfu Seðlabanka Slóvakíu og ekkert sölubann, eða hindrun á sölu NOVIS afurða hefur komið fram," segir í tilkynningu Tryggingar og ráðgjafar.