Íslenska krónan hefur á síðustu þremur dögum styrkst gagnvart helstu gjaldmiðlum heims og hefur þar með unnið upp að stórum hluta gengisveikingu frá því að stríðið í Úkraínu hófst í lok síðasta mánaðar.

Um miðjan febrúar hafði krónan styrkst um tæplega 4% gagnvart dollaranum, evrunni og sterlingspundinu frá áramótum. Hins vegar snerist þróunin við eftir að stjórnvöld Rússlands ákváðu að ráðast inn í Úkraínu þann 24. febrúar. Frá 23. febrúar til 8. mars veiktist krónan um meira en 7% gagnvart dollaranum og um meira en 3% gagnvart evrunni.

Seðlabanki Íslands beitti inngripum á gjaldeyrismarkaði í þrígang. Alls seldi Seðlabankinn erlendan gjaldeyri fyrir 1.138 milljónir króna þann 24. febrúar, 1.729 milljónir 4. mars og 6.988 milljónir þann 7. mars, sem var mesta gjaldeyrissala bankans frá árslokum 2020. Samtals nam því salan nærri tíu milljörðum króna á þessu tveggja vikna tímabili.

Eftir styrkingu síðustu daga er krónan nú aftur farin að nálgast sama stað og fyrir stríðsátökin. Þegar fréttin er skrifuð er miðgengi dollarans gagnvart krónunni 128,6 krónur samanborið við 126 krónur um miðjan febrúarmánuð. Gengi evrunnar er um 142 krónur en fyrir mánuði síðan stóð gengi hennar í 141,6 krónum.

Sérfræðingar á gjaldeyrismarkaði sem Viðskiptablaðið ræddi við um miðjan janúarmánuð nefndu nokkrar ástæður fyrir styrkingu krónunnar. Útflutningsfyrirtæki hafi mörg hver verið dugleg að verja framlegð sína með áhættuvörnum, útlit sé fyrir að ferðaþjónustan fari að taka við sér ásamt innflæði fjármagns vegna sölu fyrirtækja á borð við P/F Magn og Verne Global.

Í Þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem birtist þann 26. janúar síðastliðinn, spáði greiningardeild bankans því að útlit væri fyrir 8%-9% styrkingu krónunnar svo að raungengi krónunnar næði sama stigi og árið 2017. Taldi Greining bankans að viðskiptaafgangur væri í kortunum og benti á að vextir væru á uppleið, erlend staða þjóðarbúsins væri sterk og verðbréfaeign erlendra aðila fremur lítil í sögulegu samhengi. Aftur á móti gætu auknar erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða unnið á móti styrkingunni.