Moody‘s hefur lækkað lánshæfismat Alvogen í Bandaríkjunum, Alvogen Pharma US, niður um lánshæfisflokk, úr B2 í B3 með stöðugar horfur. Ár er síðan bæði Moody‘s og S&P færðu niður horfur Alvogen í Bandaríkjunum úr stöðugum í neikvæðar , einkum vegna seinkunar á útgáfu nýrra lyfja og mikillar skuldsetningar.

Moody‘s segir nú að skuldir Alvogen US, hafi verið meira en tífalt hærri en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) félagsins á tólf mánaða tímabili fram að 30. september 2021. Skuldahlutfallið verði áfram hátt næstu tólf mánuði. Þá verði lausafjárstaða félagsins þröng næsta árið þar sem fjárþörf vegna fjárfestinga og afborgana lána hafi aukist. Moody‘s bendir einnig á að skuldir Alvogen í Bandaríkjunum, yfir milljarður dollara, séu á gjalddaga á næsta ári, og því má vænta þess að lengja þurfi í lánunum.

Hins vegar séu líkur á að tekjur, framlegð og skuldahlutfall Alvogen í Bandaríkjunum muni batna á næstu tólf til átján mánuðum með tilkomu nýrra lyfja á markaðinn og auknum tekjum af núverandi vörum.

Félag Róberts keypt eignir af Alvogen

Alvogen í Bandaríkjunum er umsvifamesta dótturfélag Alvogen, en móðurfélagið Alvogen Lux Holdings er í Lúxemborg. Móðurfélagið hefur að undanförnu minnkað umsvif sín töluvert og selt hluti stóran hluta af starfseminni — meðal annars til Aztiq, fjárfestingafélags í meirihlutaeigu Róberts Wessman, forstjóra Alvogen. Aztiq á sjálft um 30% hlut í Alvogen.

Sjá einnig: „Gekk betur en við þorðum að vona“

Fréttablaðið sagði frá því fyrir ári að CVC Capital Partners, stærsti hluthafi Alvogen, hefði hug á að selja hlut sinn í Alvogen en ólíklegt þætti að jafn hátt verð fengist og þegar hluturinn var keyptur árið 2015 þegar félagið var metið á um tvo milljarða dollara. Þá keyptu CVC og singapúrski þjóðarsjóðurinn Temasek og meirihluta í Alvogen. Fulltrúi CVC hafnaði því í kjölfarið að til stæði að selja hlut sinn í Alvogen.

Síðan þá hefur Aztiq keypti starfsemi Alvogen í Asíu, ásamt félag í eigu tælenska ríkisins, af móðurfélagi Alovgen. Auk þess keypti Aztiq 17% hlut í Alvogen í Bandaríkjunum sem áður var að fullu í eigu móðurfélagsins. Við kaup Aztiq á 17% hlut á Alvogen í Bandaríkjunum kom fram að í kaupunum fælist 100 milljóna dollara fjármögnun sem Morgan Stanley hafði umsjón með . Því til viðbótar er Alvogen næst stærsti hluthafi systurfélagsins Alvotech á eftir Aztiq en til stendur að skrá Alvotech á markað fyrri hluta þessa árs.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Greining á afkomu viðskiptabankanna þriggja á síðasta ári sem skilar ríkissjóði tugum milljarða króna.
  • Sagt er frá auknu flækjustigi í viðskiptum við Bretland eftir Brexit.
  • Meginþorri stjórnenda íslenskra fyrirtækja reiknar með verðhækkunum, samkvæmt nýrri könnun.
  • Umfjöllun um fjárfestingu í lyfjageiranum.
  • Tekjur Íslensks textíliðnaðs jukust verulega á síðasta ári og framleiðsla fyrirtækisins heldur ekki í við pantanir.
  • Sara Pálsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Samfélags hjá Landsbankanum, ræðir helstu verkefnin framundan.
  • Heilsumarkaðurinn er á blússandi siglingu og vöruúrval aukist mikið á undanförnum árum.
  • Fjölmiðlarýnir fjallar um meintan "ofurhagnað" bankanna og ákall Felix Bergssonar um uppreisn í íslensku samfélagi.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað og Týr telur ólíklegt að Seltjarnarnes sæki um aðild að ESB.
  • Óðinn óttast að hækkanir á fasteignamarkaði verði viðvarandi vegna aðgerðarleysis og lóðaskorts.