Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu (ECB), varar við því að efnahagsvöxtur Evrópusambandsins muni lamast ef stjórnvöld loka dyrunum fyrir innflytjendum á meðan pólitísk andstaða við fólksflutninga vex.
Á ársfundi bandaríska seðlabankans í Wyoming um helgina sagði Lagarde að erlendir starfsmenn hefðu gegnt lykilhlutverki í að halda uppi bæði hagvexti og atvinnu í kjölfar heimsfaraldursins, þrátt fyrir orkukreppu, verðbólguskot og hækkandi vexti. Politico greinir frá.
Hún benti á að atvinnuþátttaka í evrusvæðinu hafi aukist um 4,1 prósent frá lokum árs 2021 til miðs árs 2025 og nær helmingur þeirrar aukningar hafi komið frá erlendu vinnuafli.
„Þó að erlendir starfsmenn hafi aðeins verið um níu prósent af vinnuaflinu árið 2022 þá stóðu þeir undir helmingi allrar atvinnuaukningar síðustu þrjú ár,“ sagði hún. „Án þeirra hefði vinnumarkaðurinn verið þrengri og framleiðsla minni.“
Þýskaland og Spánn eru háð innflytjendum
Lagarde nefndi sérstaklega Þýskaland og Spán þar sem áhrifin eru mest áberandi. Hún sagði að þýskur hagvöxtur væri um sex prósentum minni án erlends vinnuafls, en efnahagsbati Spánar eftir heimsfaraldurinn væri einnig að stórum hluta þeim að þakka.
Innflytjendur hafi bætt upp minnkandi fæðingartíðni og styttri vinnutíma Evrópubúa, sem annars hefðu dregið úr framleiðslugetu og aukið verðbólguþrýsting.
Lagarde viðurkenndi hins vegar að stjórnmálalegur þrýstingur á hertar reglur væri að aukast víða í Evrópu þar sem hægri- og þjóðernissinnuð öfl styrkja stöðu sína.
Nettóinnflytjendur hafi átt þátt í meti í íbúafjölda ESB, 450 milljónir manns, á síðasta ári.
„Fólksflutningar geta í grundvallaratriðum létt á vinnuaflsskorti þegar innfæddir eldast,“ sagði hún. „En pólitískur þrýstingur gæti smám saman takmarkað aðstreymi.“
Lagarde varaði því við að ekki mætti treysta á að vinnumarkaðurinn yrði áfram jafn sterkur og síðustu ár ef lýðfræðilegur samdráttur, pólitísk andstaða og breytt viðhorf til vinnu halda áfram að móta þróunina.