Hag­fræði­deild Lands­bankans hefur lækkað verðbólgu­spá sína fyrir næstu mánuði í kjölfar þess að vísi­tala neyslu­verðs lækkaði um 0,15 pró­sent í ágúst og verðbólga hjaðnaði úr 4,0 í 3,8 pró­sent.

Bankinn hafði áður spáð því að vísi­talan myndi standa í stað í ágúst og gerir nú ráð fyrir að ár­s­verðbólga verði 3,8 pró­sent í lok árs, eða um 0,2 pró­sentu­stigum lægri en í fyrri spá.

Flug­far­gjöld og útsölur höfðu mest áhrif

Hag­fræði­deildin segir helstu frávikin frá fyrri spám vera meiri lækkun á flug­far­gjöldum til út­landa en búist var við, auk þess sem útsölur á fötum og skóm gengu hægar til baka en venju­lega.

Verð á mat og drykkjar­vöru hækkaði minna en búist var við, eða um 0,06 pró­sent í stað 0,1 pró­sents, og reiknuð húsa­leiga hækkaði um 0,44 pró­sent á móti 0,6 pró­senta spá bankans.

Á hinn bóginn gengu útsölur á hús­gögnum og heimilis­búnaði hraðar til baka en gert var ráð fyrir og liðurinn hækkaði um 1,2 pró­sent í ágúst eftir 2,2 pró­senta lækkun í júlí.

Lægri spá fram á árið

Bankinn spáir nú óbreyttri vísitölu í septem­ber, 0,29 pró­senta hækkun í október, 0,1 pró­senta lækkun í nóvember og 0,38 pró­senta hækkun í desember.

Ef það gengur eftir verður verðbólgan 4,0 pró­sent í septem­ber og október og 3,8 pró­sent í nóvember og desember. Spáin fyrir reiknaða húsa­leigu hefur einnig verið lækkuð, úr 0,6 pró­sent í 0,5 pró­sent hækkun á milli mánaða.

Hag­fræði­deildin bendir á að áhrif gjald­frjálsra skólamáltíða, sem komu inn í mælinguna í fyrra, hverfi úr ár­s­verðbólgunni í septem­ber og því muni ár­stölur hækka lítil­lega þó að undir­liggjandi verðþróun sé að hægjast.

Spáin er aðeins lægri en síðasta spá sem við birtum í verðkönnunarvikunni, eða sem nemur um 0,2 prósentustigum. Mest áhrif hefur lægri mæling á verðbólgunni nú en við höfðum spáð. Við gerum líka ráð fyrir að útsölur á fötum og skóm gangi alveg til baka í næsta mánuði. Spá okkar fyrir reiknaða húsaleigu er nú um 0,5% hækkun á milli mánaða í staðinn fyrir 0,6% hækkun.