Landsvirkjun hagnaðist um 86,9 milljónir dala á fyrri helmingi ársins, eða sem samsvarar 11,6 milljörðum króna. Hagnaður ríkisfyrirtækisins á fyrri árshelmingi jókst um 23% frá sama tímabili í fyrra. Landsvirkjun birti árshlutauppgjör í dag.

Arðsemi eiginfjár jókst milli ára og var 8%, borið saman við 7,3% á sama tímabili 2024.

Í uppgjörstilkynningu segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að hagnaður af grunnrekstri hafi aukist um tæp 8%, en hann nam tæplega 19 milljörðum króna, eða 154,5 milljónum dala.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar á fyrri helmingi ársins jukust um 8% og námu 302,4 milljónum dala, eða um 40,3 milljörðum króna.

Mynd tekin upp úr uppgjörstilkynningu Landsvirkjunar.

„Eftir mikinn viðsnúning í vatnsbúskap Landsvirkjunar hefur raforkuvinnsla fyrirtækisins náð fyrri stöðugleika, en hlýindi og vætutíð hafa gert að verkum að öll stærstu uppistöðulónin fylltust í sumar,“ segir Hörður.

„Áfram er umframeftirspurn eftir endurnýjanlegri orku frá Landsvirkjun. Eitt mesta framkvæmdatímabil í sögu fyrirtækisins er nú að hefjast, gangi áform þess eftir. Framkvæmdir eru hafnar við vindorkuver við Vaðöldu og hefjast fljótlega við stækkun vatnsaflsstöðvarinnar við Sigöldu, auk undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun, en vonir eru bundnar við að virkjunarleyfi fáist enn á ný fyrir Hvammsvirkjun innan skamms.

Með þeirri auknu orkuvinnslu sem fylgja mun þessum framkvæmdum verður hægt að styðja við vöxt samfélagsins og bætt lífskjör á næstu árum.“