Lántöku­kostnaður breska ríkisins hefur rokið upp í kjölfar hækkunar á alþjóð­legum skulda­bréfa­vöxtum og áhyggna af efna­hags­legri stöðnun og þrálátri verðbólgu.

Ávöxtunar­krafa 30 ára breskra ríkis­skulda­bréfa, svo­kallaðra gilts, hækkaði í 5,64% sem er aðeins örfáum punktum frá meti sem sett var árið 1998.

Gilts eru ríkis­skulda­bréf breska ríkisins og jafn­gilda bandarískum Treasury-bréfum eða þýskum Bunds.

Þegar ávöxtunar­krafa hækkar þýðir það að markaðsverð bréfanna fellur og lántöku­kostnaður ríkisins hækkar.

Hækkandi vextir hafa vakið áhyggjur fjár­festa af svo­kallaðri kyrr­stöðu­verðbólgu. Þrálát verðbólga, sem nú er rétt undir 4%, hefur komið í veg fyrir að Seðla­banki Eng­lands geti lækkað stýri­vexti til að styðja við hag­vöxt sem nú er á niður­leið.

Robert Dis­hner, sjóðs­stjóri hjá Neu­berger Ber­man, sagði að ef fjár­málaráðherra neyðist til að hækka skatta til að bæta opin­ber fjár­mál gæti það dregið enn frekar úr hag­vexti og þannig ýtt undir kyrrstöðuverðbólgu.

Ávöxtunar­krafa breskra gilts hefur hækkað hraðar en á þýskum og bandarískum skulda­bréfum í ágúst.

Frá mánaðamótum hefur hún hækkað um 0,21 pró­sentu­stig, saman­borið við 0,11 stig á Bunds og 0,03 stig á bandarískum bréfum.

Hækkunin hefur verið tengd bæði að­gerðum Donalds Trump í Bandaríkjunum gagn­vart Seðla­banka Bandaríkjanna og aukinni lántökuþörf Þýska­lands.

Sér­fræðingar vara við að aukinn lántöku­kostnaður geti skert svigrúm fjár­málaráðherra Rachels Ree­ves fyrir haust­fjár­lög úr 9,9 milljörðum punda í 5,3 milljarða ef þróunin heldur áfram.

Seðla­banki Eng­lands hefur undan­farið verið að minnka efna­hags­reikning sinn með svo­kallaðri qu­antita­ti­ve tig­htening (QT), þar sem seld eru ríkis­skulda­bréf sem hann keypti í fjár­mála­kreppunni. Sjóðs­stjórar vara nú við að þessi sala auki fram­boð á gildum og ýti þannig undir ávöxtunar­kröfu þeirra.

Mark Dowding, hjá RBC BlueBay Asset Mana­gement, sagði að fjár­festar væru farnir að efast um bæði trúverðug­leika peninga­stefnu og ríkis­fjár­mála Bret­lands. „Ef stjórn­völd draga ekki úr út­gjöldum og QT heldur áfram gæti markaðurinn brugðist harka­lega,“ sagði hann.

Á meðan bandaríski seðla­bankinn er að boða fleiri vaxtalækkanir á næstu mánuðum hafa af­leiðu­markaðir í Bret­landi aðeins verðlagt eina slíka lækkun á næstu 12 mánuðum. Það skýrir að hluta til hvers vegna gilts hafa veikst meira en bandarísk Treasury-bréf að undan­förnu.

Pundið hefur þó styrkst um 1,7% á móti veikara bandaríska dollaranum í ágúst, þrátt fyrir áhyggjur af skuld­setningu og vaxandi vaxta­kostnaði ríkis­sjóðs.