Lántökukostnaður breska ríkisins hefur rokið upp í kjölfar hækkunar á alþjóðlegum skuldabréfavöxtum og áhyggna af efnahagslegri stöðnun og þrálátri verðbólgu.
Ávöxtunarkrafa 30 ára breskra ríkisskuldabréfa, svokallaðra gilts, hækkaði í 5,64% sem er aðeins örfáum punktum frá meti sem sett var árið 1998.
Gilts eru ríkisskuldabréf breska ríkisins og jafngilda bandarískum Treasury-bréfum eða þýskum Bunds.
Þegar ávöxtunarkrafa hækkar þýðir það að markaðsverð bréfanna fellur og lántökukostnaður ríkisins hækkar.
Hækkandi vextir hafa vakið áhyggjur fjárfesta af svokallaðri kyrrstöðuverðbólgu. Þrálát verðbólga, sem nú er rétt undir 4%, hefur komið í veg fyrir að Seðlabanki Englands geti lækkað stýrivexti til að styðja við hagvöxt sem nú er á niðurleið.
Robert Dishner, sjóðsstjóri hjá Neuberger Berman, sagði að ef fjármálaráðherra neyðist til að hækka skatta til að bæta opinber fjármál gæti það dregið enn frekar úr hagvexti og þannig ýtt undir kyrrstöðuverðbólgu.
Ávöxtunarkrafa breskra gilts hefur hækkað hraðar en á þýskum og bandarískum skuldabréfum í ágúst.
Frá mánaðamótum hefur hún hækkað um 0,21 prósentustig, samanborið við 0,11 stig á Bunds og 0,03 stig á bandarískum bréfum.
Hækkunin hefur verið tengd bæði aðgerðum Donalds Trump í Bandaríkjunum gagnvart Seðlabanka Bandaríkjanna og aukinni lántökuþörf Þýskalands.
Sérfræðingar vara við að aukinn lántökukostnaður geti skert svigrúm fjármálaráðherra Rachels Reeves fyrir haustfjárlög úr 9,9 milljörðum punda í 5,3 milljarða ef þróunin heldur áfram.
Seðlabanki Englands hefur undanfarið verið að minnka efnahagsreikning sinn með svokallaðri quantitative tightening (QT), þar sem seld eru ríkisskuldabréf sem hann keypti í fjármálakreppunni. Sjóðsstjórar vara nú við að þessi sala auki framboð á gildum og ýti þannig undir ávöxtunarkröfu þeirra.
Mark Dowding, hjá RBC BlueBay Asset Management, sagði að fjárfestar væru farnir að efast um bæði trúverðugleika peningastefnu og ríkisfjármála Bretlands. „Ef stjórnvöld draga ekki úr útgjöldum og QT heldur áfram gæti markaðurinn brugðist harkalega,“ sagði hann.
Á meðan bandaríski seðlabankinn er að boða fleiri vaxtalækkanir á næstu mánuðum hafa afleiðumarkaðir í Bretlandi aðeins verðlagt eina slíka lækkun á næstu 12 mánuðum. Það skýrir að hluta til hvers vegna gilts hafa veikst meira en bandarísk Treasury-bréf að undanförnu.
Pundið hefur þó styrkst um 1,7% á móti veikara bandaríska dollaranum í ágúst, þrátt fyrir áhyggjur af skuldsetningu og vaxandi vaxtakostnaði ríkissjóðs.