Lántökukostnaður franska ríkisins hefur hækkað hratt í vikunni eftir að François Bayrou forsætisráðherra boðaði vantraustsatkvæðagreiðslu í þinginu á mánudaginn sem gæti fellt ríkisstjórnina og aukið pólitíska óvissu í landinu.
Bayrou tilkynnti að hann myndi tengja fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar við vantraustsyfirlýsingu þann 8. september næstkomandi.
Fjármálaráðherrann Éric Lombard hefur varað við því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti þurft að grípa inn í ef ríkisstjórnin félli, sem ýtti undir óöryggi fjárfesta.
Vaxtakostnaður franska ríkisins rauk upp í hæstu hæðir en krafan á 10 ára ríkisskuldabréf fór í 3,53 prósent. Vaxtamunurinn gagnvart þýskum ríkisskuldabréfum nær því að slá met síðasta árs.
Á síðustu mánuðum hefur vaxtamunur Frakklands og Ítalíu minnkað jafnt og þétt, í fyrsta sinn frá fjármálakreppunni 2008. Lombard fjármálaráðherra sagði einnig í morgun að ef ríkisstjórnin félli myndu frönsk lánskjör verða verri en þau ítölsku „innan 15 daga“.
Hlutabréfamarkaðurinn brást einnig harkalega við. Cac 40-vísitalan féll 2,2 prósent í morgun, eftir 1,5 prósenta lækkun daginn áður. Sérstaklega urðu innlend fyrirtæki fyrir höggi en til að mynda fór gengi Société Générale-bankans niður 3,5 prósent.
„Markaðurinn óttast að falli ríkisstjórnarinnar fylgi algjör óreiða í stjórnmálunum sem útilokar aðgerðir til að ná niður halla ríkissjóðs,“ segir Peter Schaffrik, yfirmaður evrópskra hagfræðigreininga hjá RBC Capital Markets, við Financial Times.
Hvorki vinstri flokkar né hægri flokkur Marine Le Pen ætla að styðja ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslunni.
Þar sem enginn flokkur hefur haft hreinan meirihluta síðan Macron boðaði og tapaði þingkosningum fyrir ári, telja greiningaraðilar að Bayrou verði líklega felldur.
„Markaðurinn verðleggur nú bæði pólitískan óstöðugleika og aukna hættu á fjárlagahalla,“ segir Emmanuel Cau, yfirmaður hlutabréfagreininga hjá Barclays.
Í kjölfar tíðindanna um yfirvofandi stjórnarkreppu í Frakklandi féll evran um 0,8 prósent gagnvart Bandaríkjadal í gær en hefur styrkst örlítið í dag.
Chris Turner, yfirmaður markaðsgreininga hjá ING, segir stærri spurninguna vera hvort stjórnmálakreppan í Frakklandi gæti grafið undan trausti á evrunni í heild eða hvort kreppan verði einangruð við Frakkland.