Áslaug Dagbjört Benónýsdóttir hefur verið ráðin í stöðu sviðsstjóra ráðgjafasviðs hjá Þekkingu. Hún hefur gegnt stöðu upplýsingaöryggisstjóra hjá félaginu síðustu misseri og mun hún sinna hlutverkunum samhliða. Samhliða þessari breytingu tekur Áslaug sæti í framkvæmdastjórn Þekkingar.
„Örar breytingar og þar með tækifæri liggja í ráðgjöf innan upplýsingatækni og er mikil ánægja innan Þekkingar að Áslaug taki þar við stjórnartaumunum,“ segir í fréttatilkynningu.
Sjá einnig: „Má segja að ég sé alin upp í ruslinu“
Áslaug er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur tekið virkan þátt í að efla fagþekkingu hérlendis með störfum fyrir Stjórnvísi og var til að mynda formaður í stjórn ISO staðla faghóps Stjórnvísi á árunum 2013-15.
„Það er frábært tækifæri að taka þátt í þeirri vegferð sem Þekking er á. Hjá Þekkingu starfar fólk sem býr yfir mikilli þekkingu og fagmennsku. Starfsumhverfi fyrirtækja í dag er orðið að stórum hluta í tölvunni og er því að mörgu að huga en öryggismálin eru mér þar auðvitað sérstaklega hugleikin. Upplýsingatæknin er á fleygiferð og nýting hennar felur í sér fjölmörg tækifæri t.d. til hagræðingar og/eða bættrar þjónustu. Möguleikarnir eru ótrúlega margir. Þar getur Þekking m.a. komið til aðstoðar og veitt faglega og óháða ráðgjöf,“ er haft eftir Áslaugu Dagbjörtu.