Launahækkanir í Bandaríkjunum voru lítillega umfram væntingar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Laun hækkuðu um 1,2%, borið saman við spár um 1,1% hækkun. Líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna hækki stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 2. og 3. maí hafa því aukist. Stýrivextir standa nú í 5% eftir hækkunarferli í viðleitni bankans til að kæla hagkerfið og draga úr verðbólgu.

Vísitala atvinnukostnaðar hækkaði um 4,8% á fjórðungnum, borið saman við mælda 5,1% hækkun vísitölunnar um síðustu áramót. Árstaktur verðvísitölu einkaneysluútgjalda (e. personal-consumption expenditures price index) mældist 4,2% í mars, borið saman 5,1% mánuðinn áður. Markmið seðlabankans er að halda hækkun vísitölunnar í 2% á ársgrundvelli.

Vísbendingar um kólnun í hagkerfinu

Það eru þó ýmis merki þess að farið sé að hægja á hagkerfi Bandaríkjanna, en sumir hagfræðingar spá samdrætti á seinni hluta ársins. Samdráttur hefur orðið í atvinnuvegafjárfestingu, í byggingargeiranum auk þess sem einkaneysla hefur staðið í stað undanfarna tvo mánuði.

Wall Street Journal greinir frá.