Laun forstjóra fyrirtækja sem tilheyra S&P 500 hlutabréfavísitölunni hækkuðu að jafnaði um 7,7% á síðasta ári, samkvæmt nýrri úttekt Farient Advisors sem Financial Times greinir frá í dag.
Til samanburðar jukust laun forstjóra S&P 500 félaga um 7,2% árið 2023. Síðast hækkuðu þau meira árið 2021 eða um 11,5%.
Launakjör forstjóranna voru að miðgildi 19 milljónir dala í fyrra eða sem samsvarar 2,3 milljörðum króna á núverandi gengi krónunnar.
Launahæsti forstjórinn var Rick Smith sem stýrir Axon Enterprise sem selur meðal annars stuðbyssur og aðrar vörur fyrir herinn og lögregluna. Smith þénaði um 164,5 milljónir dala eða um 20 milljarða króna sem má að mestu rekja til hlutabréfahlunninda.
Brian Niccol, sem tók við sem forstjóri Starbucks í fyrra, var næst efstur með 95,8 milljónir dala, eða hátt í 12 milljarða króna. Launakjör hans innihalda meðal annars 5 milljóna dala ráðningarbónus og hlutabréfahlunnindi upp á 75-80 milljónir dala sem hann fékk m.a. fyrir að láta af störfum hjá Chipotle og gefa eftir óunnar bónusgreiðslur og aðra kaupauka þar.
Í umfjölluninni kemur fram að launakjör Niccol séu um 6.666 sinnum hærri en meðallaun hins hefðbundna starfsmanns hjá Starbucks sem er með um 15 þúsund dala í árslaun.
Jafnframt kemur fram að almenn launakjör á bandaríska vinnumarkaðnum hafi aukist um 3,6% í fyrra, samkvæmt gögnum bandarísku vinnumálastofnunarinnar.
Forstjórar félaga sem tilheyra bresku FTSE 100 hlutabréfavísitölunni þénuðu að jafnaði 1,58 milljónir punda á síðasta ári eða sem samsvarar 760 milljónum króna. Það er um 6,8% aukning frá fyrra ári.