Launaskrið hefur verið á meðal 200 launahæstu starfsmanna hins opinbera. Á þriggja ára tímabili, eða frá árinu 2022 til og með 2024, hækkuðu laun þingmanna, ráðherra, sveitarstjórnarfólks, forstjóra opinberra fyrirtækja, embættismanna og starfsmanna hins opinbera um 30%. Til þess að setja þessar tölur í samhengi þá hækkaði launavísitala í landinu um 23% á þessum þremur árum.
Launaskriðið hjá hinu opinbera heldur áfram því í sumar hækkuðu laun helstu ráðamanna og stjórnenda hjá hinu opinbera um 5,6% á sama tíma hækka laun á almenna vinnumarkaðnum hækka um 3 til 4% á ári samkvæmt Stöðugleikasamningnum, sem undirritaður var vorið 2024.
Áhugavert er að bera saman launahækkanir toppanna hjá hinu opinbera saman við launahækkanir forstjóra fyrirtækja á almenna markaðnum. Þegar það er gert kemur í ljós að laun 200 launahæstu forstjóranna hækkuðu um 24% frá 2022 til 2024.
Þetta má lesa úr tölum sem koma fram í nýju Tekjublaði Frjálsrar verslunar, sem kom út í gær. Rétt er að taka fram að allar launatölur, sem birtast í Tekjublaðinu, eru reiknaðar út frá útsvari, en þegar 200 einstaklingar eru teknir þá gefa upplýsingarnar samt ákveðna vísbendingu um þróunina.
2,5 milljónir á mánuði að meðaltali
Meðallaun þeirra 200 launahæstu hjá hinu opinbera námu tæplega 2,5 milljónum króna á mánuði á síðasta ári samanborið við 1,9 milljón árið 2022. Þeir tekjuhæstu í opinbera geiranum voru Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar með um 4,6 milljónir á mánuði og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, sem var með um 4,5 milljónir.
Taka ber fram að samkvæmt Tekjublaðinu var Runólfur með 7,3 milljónir í mánaðarlaun í fyrra en hann hefur greint frá því að sú upphæð helgist af því að hann hafi tekið út séreignasparnað á árinu 2024 en slík úttekt er útsvarsskyld.
Óskar Jósefsson, forstjóri Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) var með tæplega 4,4 milljónir á mánuði í fyrra en hann tók við starfinu árið 2023 þegar hann var settur forstjóri. Hann var svo skipaður í starfið í maí í fyrra. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, var með 4,3 milljónir á mánaðarlaun í fyrra en hún var skipuð í loks árs 2023.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, var með tæplega 3,9 milljónir á mánuði í fyrra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, var með tæplega 3,7 milljónir.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, var með tæplega 3,9 milljónir á mánuði í fyrra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, var með tæplega 3,7 milljónir.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Laun forstjóra í einkageiranum
Meðal mánaðarlaun 200 forstjóra í einkageiranum námu tæplega 5,1 milljón króna á síðasta ári. Á árinu 2002 námu meðallaun þessa hóps tæplega 4,8 milljónum.
Líkt greint var frá á vef Viðskiptablaðsins í gær þá var Árni Sigurðsson, aðstoðarforstjóri JPT Marel, launahæsti Íslendingurinn í fyrra með ríflega 40 milljónir króna á mánuði að meðaltali.

Byggt á útsvari
Vegna launatalna í Tekjublaði Frjálsrar verslunar er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.