Launavísitala opinbera markaðarins hefur hækkað um 18,7% á samningstíma gildandi kjarasamninga. Opinberi markaðurinn tók fram úr almenna markaðnum í byrjun þessa árs en hækkun almenna markaðarins á sama tíma nemur 14%. Þetta kemur fram í haustskýrslu kjaratölfræðinefndar.

Í skýrslunni er tekið fram að muninn muni rekja til styttingar vinnutíma á opinbera markaðnum en hann var víðast var 13 mínútur á dag samanborið við níu mínútur á dag hjá almenna markaðnum. Þá eru taxtalaun algengari hjá hinu opinbera en krónutöluhækkun þeirra var hærri en almenn hækkun launa.

Í júlí 2021 hafði launavísitala á almennum markaði hækkað um samtals 15,9% á almennum markaði frá því í mars 2019. Hækkunin hjá sveitarfélögum nam 24,2% en 17,8% hjá ríkinu. Lækkunina frá því í janúar má rekja til árstíðarbundins samdráttar í álags og bónusgreiðslum.

„Laun bæði félagsmanna ASÍ og BSRB hafa hækkað mun meira hjá ríkinu en á almenna markaðnum. Laun félagsmanna KÍ hjá ríkinu (kennarar á framhaldsskólastigi) hafa hækkað um 14,1% á tímabilinu og er það minni hækkun en félagsmenn annarra samtaka hafa fengið bæði hjá ríkinu og á almenna markaðnum,“ segir í skýrslunni.

Þá er þess getið að launahækkanir hjá sveitarfélögum hafi verið hlutfallslega mun meiri en hjá ríkinu og almenna markaðnum og gildir það þvert á samtök. Þannig hækkuðu laun félagsmanna ASÍ og BSRB, sem vinna hjá sveitarfélögum, um 28-32% á tímabilinu sem var til skoðunar.

„Þannig hækkaði grunntímakaup að meðaltali mest meðal félagsmanna aðildarfélaga ASÍ og BSRB á opinberum markaði; prósentuhækkunin meðal heildarsamtaka er að jafnaði minnst á almenna markaðnum og mest hjá Reykjavíkurborg,“ segir í skýrslunni.

„Samkvæmt tölum OECD jókst framleiðni vinnuafls á Íslandi (VLF á vinnustund) tvöfalt meira en að meðaltali í OECD, eða 2,0% samanborið við 1,0% á árunum 2015-2019. Sú jákvæða þróun kom til móts við hækkun launakostnaðar að einhverju leyti og rétti af samkeppnisstöðu hagkerfisins á síðustu árum. Mikil hækkun launakostnaðar til lengri tíma umfram önnur ríki og umfram framleiðnivöxt mun þó að öðru jöfnu stuðla að verðbólgu og lakari samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsatvinnuvega,“ segir þar enn fremur.