Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hyggst liggja fram tillögu um lækkun gatnagerðargjalda á næsta fundi borgarstjórnar, þriðjudaginn 2. september. Tillagan felur í sér að gatnagerðargjald lækki til samræmis við fyrra hlutfall.
Í byrjun árs ákvað meirihluti borgarstjórnar hækka gatnagerðargjöld um 85% fyrir fjölbýlishús, 33% á par- og raðhús og 38% á atvinnuhúsnæði. Breytt gjaldtaka tekur gildi á mánudaginn, 1. september.
Þáverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, bar fyrir sig að gatnagerðargjöld séu ein af lykiltekjustofnum sveitarfélaga og því sé ætlað að standa undir gatnagerð í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja. Núverandi tekjur af gatnagerðargjöldum standi ekki undir kostnaði af gatnagerð og viðhaldi gatna og gatnamannvirkja.
Í tillögu Sjálfstæðisflokksins sem lögð verður fyrir borgarstjórn í næstu viku er lagt til að falla lækka gjaldið til samræmis við fyrra hlutfall og verði því eftirfarandi:
- Einbýlishús: 15%, óbreytt álagningarhlutfall.
- Parhús: hlutfall lækki úr 15% í 11,3%.
- Raðhús, keðjuhús: hlutfall lækki úr 15% í 11,3%.
- Fjölbýlishús: hlutfall lækki úr 10% í 5,4%
- Annað húsnæði: hlutfall lækki úr 13% í 9,4%.
Þá verði tekinn upp að nýju afsláttur af gluggalausu kjallararými, sem aðeins er gengt í innan frá, sem og vegna yfirbyggðra göngugatna og sameiginlegra bifreiðageymsla fyrir þrjár eða fleiri bifreiðar.
„Í algjörum sérflokki varðandi skattlagningu á íbúðarhúsnæði“
Í greinargerð með tillögunni segir að gatnagerðargjöldin í Reykjavík séu að hækka um allt að 90% þegar tekið er tillit til þess að með breytingunni verði einnig tekin upp gjaldtaka á bíla- og hjólageymslur ofanjarðar. Þá bætist mikil hækkun gatnagerðargjalda við önnur gjöld og kvaðir, sem húsbyggjendur í Reykjavík inni nú þegar af hendi.
Borgin innheimti m.a. há byggingarréttargjöld (innviðagjöld), sem geti numið tugum þúsunda króna á nettófermetra í fjölbýlishúsi. Eftir breytinguna geti byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld numið allt að tíu milljónum króna samanlagt fyrir 100 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi.
„Að auki bætast við ýmsar aðrar kvaðir og kostnaður, sem húsbyggjendum er gert að inna af hendi. Kvöð eru um að félagslegar íbúðir skuli vera ákveðið hlutfall af íbúðum í fjölbýlishúsum, sem húsbyggjandi þarf að selja á undirverði til borgarinnar. Þá þarf hlutfall leiguíbúða að vera a.m.k. 15%. Slíkar kvaðir auka álögur á húsbyggjendur og hækka þannig enn frekar íbúaverð til almennings.
Ekkert sveitarfélag á landinu leggur eins há gjöld á nýjar íbúðir og Reykjavíkurborg. Borgin er því í algerum sérflokki varðandi skattlagningu á íbúðarhúsnæði.“
Sjálfstæðisflokkurinn segir sérfræðingar á byggingamarkaði hafa varað við því að þessi mikla hækkun gatnagerðargjalda muni leiða til hækkunar á húsnæðisverði og jafnvel letja byggjendur til að ráðast í nýbyggingar. Þá geti afleiðingin einnig orðið sú að dregið verði úr gæðum íbúða í því skyni að lækka byggingarkostnað vegna hækkunarinnar.
Gefin eru upp eftirfarandi dæmi um áhrif á gjaldendur í fjölbýlishúsum:
- 60 fermetra íbúð (72 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi.
Gatnagerðargjaldið nemur 1.176.349 krónum fyrir hækkun en 2.243.425 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur því 1.067.075 kr. fyrir umrædda íbúð eða 90,7%. - 70 fermetra íbúð (84 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi.
Gatnagerðargjaldið nemur 1.372.408 krónum fyrir hækkun en 2.606.496 eftir hækkun. Hækkunin nemur því 1.234.088 kr. fyrir umrædda íbúð eða 90%. - 80 fermetra íbúð (96 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi.
Gatnagerðargjaldið nemur 1.568.466 krónum fyrir hækkun en 2.969.566 eftir hækkun. Hækkunin nemur 1.401.101 kr. fyrir umrædda íbúð eða 89%. - 90 fermetra íbúð (108 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi.
Gatnagerðargjaldið nemur 1.764.524 krónum fyrir hækkun en 3.332.637 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur 1.568.113 kr. eða 89%. - 100 fermetra íbúð (120 fm. brúttó) í fjölbýlishúsi.
Gatnagerðargjald nemur 1.960.582 krónum fyrir hækkun en 3.695.708 kr. eftir hækkun. Hækkunin nemur því 1.735.126 kr. eða 88,5%.