Íslenska tæknifyrirtækið Leikbreytir ehf. hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé þýska fyrirtækisins Passcreator GmBH sem sérhæfir sig í rafrænum kortalausnum fyrir Apple og Google Wallet.
Fjallað er um yfirtökuna í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.
Yngvi Tómasson, forstjóri og stofnandi Leikbreytis, segir að með kaupunum sé fyrirtækið – sem hefur þróað fjártæknilausnir í kringum utanumhald stafrænna gjafa- , viðskiptamanna- og vildarkorta – að taka risaskref inn á alþjóðamarkað fyrir lausnir sínar.
Yfirtakan hraði markaðssókn félagsins en að öðrum kosti hefði það þurft að setja mikinn kraft í að byggja upp markaði frá grunni sem er bæði tímafrekt og kalli á umtalsvert fjármagn.
Passcreator var stofnað árið 2012 í Munchen í Þýskalandi þar sem höfuðstöðvar félagsins eru staðsettar. Félagið var stofnað til að útfæra lausnir í kringum Apple Passbook (síðar Apple Wallet) og hefur félagið frá stofnun unnið náið með Apple og Google.
Hjá Passcreator eru í dag um 500 viðskiptavinir í 50 löndum og um 8 milljón notendur víðs vegar um heim nota lausnir Passcreator. Viðskiptavinir Passcreator GmBH eru m.a. stærstu tryggingafélög Þýskalands, Mercedes Benz, BMW og Óskarsverðlaunahátíðin. Þessi viðskiptavinahópur mun bætast við yfir 100 viðskiptavini Leikbreytis.
Hjá sameinuðu félagi verða stöðugildi rúmlega 20 á fimm starfstöðvum í jafnmörgum löndum. Þar af eru fimm á Íslandi og níu í Munchen. David Sporer, stofnandi Passcreator mun starfa áfram hjá sameinuðu félagi.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Leikbreyti og kaupin á Passcreator í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.