Olíuframleiðsla í Líbýu hefur dregist saman um rúmlega hálfa milljón tunna í kjölfar öldu mótmæla í landinu. Líbýa hefur ákveðið að loka Sharara olíuvinnslusvæðinu sem er stærsta olíuvinnslusvæði landsins og hefur varað við því að fleiri svæðum verði lokað. Lokanirnar koma á mjög viðkvæmum tíma fyrir alþjóðlega hrávörumarkaði.

Sharara er staðsett í vesturhluta landsins og getur dælt um 300.000 tunnum á dag. Samkvæmt frétt Bloomberg var ákveðið var að loka Sharara eftir að mótmælendur söfnuðust saman á svæðinu til að mótmæla og krefjast þess að Abdul Hamid Dbeibah, forsætisráðherra landsins, segði af sér. Lokunin í Sharara sigli í kjölfar lokunar á El Feel olíuvinnslusvæðinu sem getur dælt um 65.000 tunnum á dag en var lokað af sömu ástæðu.

Mótmælin hafa einnig haft áhrif á útflutning olíu en National Oil Corp., sem er í ríkiseigu, hefur stoppað útflutning olíu frá ákveðnum höfnum landsins. Þá hafa mótmælendur hótað því að stoppa útflutning frá fleiri höfnum.

Hluti þingsins lýsti því yfir í ferbrúar síðastliðnum að fyrrverandi innanríkisráðherra landsins, Fathi Bashagha, væri forsætisráðherra en Dbeibah, sitjandi forsætisráðherra, hefur ekki hlustað á ákall þingsins.