Nýtt frum­varp frá danska fjár­málaráðherranum Rasmus Stok­lund mun gera fyrir­tækjum í Dan­mörku mun auðveldara að um­buna starfsmönnum með hluta­bréfum eða kauprétti án þess að þeir lendi í óvæntum skatt­kröfum.

Sér­fræðingar sem Børsen ræddi við segja að breytingarnar séu „gríðar­leg fram­för“ og muni bæði draga úr skatt­byrði starfs­manna og minnka skrifræði fyrir fyrir­tækin.

„Þetta er ein­fald­lega frábært. Ég get varla beðið eftir að þetta taki gildi,“ segir Henning Boye Han­sen, skattek­spert hjá BDO, í sam­tali við Børsen.

Hingað til hefur verið al­gengt að starfs­menn hafi verið skatt­lagðir strax þegar þeir nýttu kauprétti sína, jafn­vel þó að hluta­bréfin hefðu ekki verið seld eða hefðu fallið í verði síðar.

Það hefur leitt til þess að sumir hafa setið uppi með háar skatt­kröfur án þess að fá raun­veru­legan hagnað í hendur.

Ditte Buch Andr­sen, fyrr­verandi starfs­maður danska frum­kvöðla­fyrir­tækisins Vivino, nýtti kauprétt sem hún hafði öðlast á starfstíma sínum og reiknaði hún ekki með því að greiða meira en hálfa milljón danskra króna í skatt án þess að hafa hagnast á hluta­bréfunum.

Árið 2022 ákvað hún að nýta rétt sinn til að kaupa hluta­bréf í Vivino á hagstæðu verði, fyrir 80.000 danskar krónur. Á þeim tíma var markaðsvirði hluta­bréfanna metið á 916.000 danskar krónur.

Hún leitaði áður ráðgjafar hjá skat.dk, þar sem henni var sagt að skattur ætti ekki að falla til nema hún fengi greiðslu í reiðufé. Hún taldi því málið í full­komnu lagi.

Þetta gerðist meðal annars í frægu til­felli í Dan­mörku, sem Við­skipta­blaðið fjallaði um á sínum tíma.

Ári síðar, þegar hún opnaði yfir­litið sitt hjá dönskum skatt­yfir­völdum, beið hennar óvæntur reikningur upp á 533.000 danskar krónur í tekju­skatt. Sam­svarar það um tíu milljónum ís­lenskra króna.

Nýju reglurnar eiga að koma í veg fyrir slík til­felli með því að heimila skatt­lagningu fyrst þegar hluta­bréfin eru seld, en ekki þegar kaupréttur er nýttur.

Meira svigrúm fyrir sprota­fyrir­tæki

Megin­breytingarnar fela í sér að miklu fleiri fyrir­tæki geta nú nýtt sér vægari skatta­reglur sam­kvæmt svo­kallaðri 7P-grein skatta­laganna.

  • Há­marks­aldur fyrir­tækis sem getur nýtt reglurnar hækkar úr 5 árum í 10 ár.
  • Há­marks­fjöldi starfs­manna sem geta tekið þátt hækkar úr 50 í 150.
  • Há­marks­velta hækkar úr 15 milljónum í 200 milljónir króna.

Ekki þarf lengur að leggja fram markaðsverðmat á hluta­bréfum við út­hlutunina.

Eldri reglurnar verða þó áfram í notkun

Sum fyrir­tæki munu halda áfram að nota eldri reglur sam­kvæmt 28. grein skatta­laganna, meðal annars vegna þess að þar er heimilt að draga kostnað vegna hluta­bréfaút­hlutunar frá fyrir­tækja­skatti.

Því má búast við að stærri fyrir­tæki og alþjóð­legar sam­steypur haldi sig að hluta við þá leið, þrátt fyrir aukna áhættu fyrir starfs­menn.

Thomas Black-Peter­sen, fram­kvæmda­stjóri sam­taka skráðra fyrir­tækja (FBV), segir þó að nýju reglurnar muni gera lífið auðveldara fyrir lang­flest fyrir­tæki:

„Í dag eru 50% fyrir­tækja með starfs­menn í 7P-skjólinu, en ég geri ráð fyrir að það hlut­fall fari upp í 75% þegar breytingarnar taka gildi.“