Sér­fræðingar vara nú við því að svo­kallaðir raf­mynta­sjóðir, fyrir­tæki sem taka lán eða selja hluta­fé til að kaupa ein­göngu raf­myntir, séu orðin að eins konar „glópa­gulli“ fjár­mála­markaðanna.

Í rit­stjórnar­pistli í Financial Times er bent á að þessi fyrir­tæki, sem á ensku eru nefnd bitcoin treasury companies (BTCs), geti reynst fjár­festum dýr­keypt þegar næsti „raf­mynta­vetur“ skellur á.

Höfundurinn dregur upp sögu­legar hliðstæður, meðal annars við hrunið 2008 þegar fjár­mála­fyrir­tæki tóku að setja saman skulda­vafninga úr sí­fellt lakari lánum í von um áfram­haldandi gróða.

Nú sé svipaða ævintýra­mennsku að finna í BTC-fyrir­tækjum sem safna skuldum og hluta­fé ein­göngu til að kaupa raf­myntir, aðal­lega bitcoin.

Saga Michael Saylor og fyrir­tækis hans Stra­tegy, sem fyrr var MicroStra­tegy, hefur orðið fyrir­mynd annarra.

Hann breytti hug­búnaðar­fyrir­tæki sínu í slíkan raf­mynta­sjóð árið 2020 og markaðsvirði þess hefur meira en tuttugu­faldast síðan. Nú er Stra­tegy metið á yfir 100 milljarða dollara – þre­falt meira en bandaríska fjár­mála­fyrir­tækið Sta­te Street.

Þessi vel­gengni hefur ýtt undir sprengi­vöxt BTC-fyrir­tækja.

Sam­kvæmt breska miðlaranum Peel Hunt eru þau nú orðin yfir 160 á heims­vísu. Fyrir­tækin hafa í mörgum til­vikum breytt starf­semi sinni al­gjör­lega, úr hug­búnaðar- eða markaðs­fyrir­tækjum í hreina spá­kaup­mennsku með raf­myntir.

Í pistli FT segir að í sumum löndum sé hægt að nýta skattalöggjöf til að greiða lægri fjár­magns­tekju­skatt með því að fjár­festa í gegnum slík fyrir­tæki frekar en beint í raf­myntum.

Þá gætu BTC-fyrir­tækin snið­gengið reglur sem banna stofnana­fjár­festum eða al­mennum fjár­festum að kaupa raf­myntir beint, til dæmis þar sem raf­mynta­sjóðir eða kaup­hallar­sjóðir með raf­myntir (ETF) hafa ekki fengið leyfi.

Einnig er bent á að ný löggjöf Donalds Trump Bandaríkja­for­seta, þar á meðal svo­nefndur „Genius Act“, hafi ýtt undir eftir­spurnina með því að opna fyrir að líf­eyris­sjóðir geti fjár­fest í raf­myntum.

Í rit­stjórnar­pistli FT er þó varað við að allt geti breyst þegar næsti „raf­mynta­vetur“ gengur í garð, líkt og gerðist 2018 og 2022 þegar verð hrundi.

Þá muni fjár­festar í BTC-fyrir­tækjum finna fyrir því að hafa veðjað á of­metinn markað, enda sé áhættan „marg­földuð“ með skuld­setningu og sí­vaxandi bjartsýni.