Fjármálaráð segir að lítið megi út af bera í rekstri hins opinbera ef markmið fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 eigi að nást. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að halli verði á rekstri hins opinbera út árið 2027 þó hallinn fari minnkandi og nemi um 0,7% af landsframleiðslu.
Fjármálaráð bendir á í álitsgerð sinni að það verði ekki létt verk að vinda ofan af mótvægisaðgerðum vegna heimsfaraldursins og koma ríkisfjármálunum á sama tíma aftur á réttan kjöl. Í áætluninni sé engu síður boðaður vöxtur útgjalda án þess að tiltekið sé hvernig afla á tekna á móti. „Þess í stað verður áherslan lögð á aukna skilvirkni í opinberum rekstri og jákvæð áhrif hagvaxtar á tekjur," segir í fjármálaáætluninni.
Afkomuregla sem sett var fyrir nokkrum árum um rekstur hins opinbera var numin úr gildi í heimsfaraldrinum, en innleiða á hana á ný árið 2026. Afkomureglan segir m.a. til um að halli hins opinbera skuli vera undir 2,5% af landsframleiðslu á ári og afkoma hins opinbera að vera jákvæð á fimm ára tímabili. Í álitsgerðinni er bent á að líkindum þurfi afkoma ríkissjóðs að vera jákvæð um 0,6% af landsframleiðslu á ári árin 2028 til 2030 til að afkomumarkmið laganna náist náist, en þau ár eru utan spátímans. Því veltir fjármálaráð upp hvort ekki væri heppilegra ef áætlunin næði yfir lengra tímabil en næstu fimm ár líkt og heimild er fyrir í lögum.
Freistnivandi stjórnvalda
Fjármálaráð bendir einnig á þann freistnivanda sem stjórnvöld standi frammi fyrir á hverjum tíma að ýta vandanum á undan sér og eyða strax tímabundnum tekjum sem koma vegna óvæntra búhnykkja. „Hér skiptir höfuðmáli að ekki sé stofnað til varanlegra útgjalda eða dregið úr afkomubætandi ráðstöfunum vegna tekjuaukningar sem í raun er froða.“
Viss galli sé því á áætluninni að ekki sé leiðrétt fyrir hagsveiflunni. „Þegar ekki er leiðrétt fyrir áhrifum hagsveiflunnar, en það er mjög erfitt í jafn sveiflukenndu hagkerfi og því íslenska, birtist freistnivandi í því að líta á tímabundna betri afkomu sem varanlega og auka útgjöld í samræmi við það. Afleiðingarnar birtast í því að eyða öllu sem kemur í kassann, ef svo má að orði komast. Slíkt vinnur gegn sjálfbærni og stöðugleika opinberra fjármála. Fjármálaráð telur að lög um opinber fjármál og það verklag sem þeim hefur fylgt hafi dregið úr þessum freistnivanda, en hann er engu að síður enn til staðar. Ætla má að á tímabili framlagðrar áætlunar muni reyna á viðnám við slíkum vanda," segir í álitsgerð fjármálaráðs.
Fjármálaráð brýnir fyrir stjórnvöldum um að áætlanir þeirra þurfi að vera raunsæjar. Þær eiga hins vegar lögum samkvæmt að byggja á opinberum hagspám, en slíkar spár rætast sjaldan, sér í lagi í jafn sveiflukenndu efnahagsumhverfi og er á Íslandi. Því er velt upp hvort ekki hægt sé að viðhafa meiri kjölfestu í áætlunargerðinni.
Skynsamlegir kjarasamningar skipta miklu
Þá skipti miklu að skynsamlegir kjarasamningar verði gerðir þar sem forðast verði hið íslenska höfrungahlaup. „Hér skiptir miklu að verja kaupmátt launa og koma í veg fyrir höfrungahlaup launa og verðlags. Þetta er erfitt verkefni, ekki síst nú um stundir þegar óvissa ríkir um ýmsa ytri þætti vegna stöðu heimsmála. Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt og nú að tryggja gott samspil peningamála og opinberra fjármála til að standa vörð um stöðugleika í hagkerfinu og verja með því lífskjörin til lengri tíma litið," segir í álitsgerð fjármálaráðs.