Ljósleiðarinn lauk í gær útboði, sem var bundið við fagfjárfesta, á grænum skuldabréfum sem eru verðtryggð til 20 ára með lokagjalddaga í júní 2041. Tilboð bárust að nafnvirði 3,3 milljarða króna með ávöxtunarkröfu á bilinu 1,30%-1,56%. Tilboðum að nafnvirði 2,1 milljarðs króna var tekið á ávöxtunarkröfunni 1,49%.
Stærð skuldabréfaflokksins nemur nú 8,2 milljörðum króna. Unnið er að skráningu bréfanna á Nasdaq Ísland og vonir bundnar við að skráningarferlinu ljúki á næstu vikum.
Í fréttatilkynningu frá Ljósleiðaranum segir að útboðið stuðli að því að fjármögnunarkostnaður fyrirtækisins fari áfram lækkandi. Andvirði bréfanna verður nýtt bæði til nýrra grænna fjárfestinga í ljósleiðarakerfi fyrirtækisins og endurfjármögnunar lána vegna fyrri uppbyggingar.
Sjá einnig: 273 milljóna hagnaður Ljósleiðarans
Þetta er annað útboð Ljósleiðarans á grænum skuldabréfum á grundvelli ramma sem kynntur hefur verið fjárfestum og birtur opinberlega. Ramminn hefur hlotið óháð mat sem „dökkgrænn“.
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans :
Það er mjög hvetjandi að sjá þetta traust sem markaðurinn hefur á Ljósleiðaranum, verkefnum hans og framlagi til umhverfisins og betra samfélags. Við höfum kynnt fjárfestum metnaðarfull áform okkar um áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptanets Ljósleiðarans og öfluga þátttöku í að ná markmiði íslenskra stjórnvalda um Ísland fulltengt.
Fyrir utan nýbyggingarhverfi í þeim byggðarlögum sem við höfum þegar lokið við að fulltengja, erum við þessa dagana að tengja nýja viðskiptavini í Reykjanesbæ, þá taka Vogar við ásamt Stokkseyri og Eyrarbakka í Árborg. Samhliða erum við að leggja nýjan burðarmikinn streng með suðurströnd landsins í framhaldi af viðbrögðum okkar við eldgosinu á Reykjanesskaganum fyrir rétt rúmu ári. Hann mun tengjast nýjum sæstreng Farice, sem kemur á land við Þorlákshöfn í Ölfusi.
Samfélagið okkar er að þróast býsna hratt og örugg og góð fjarskipti leika sífellt stærra hlutverk í atvinnulífi og mannlífinu öllu. Ljósleiðarinn á stóran þátt í að Íslendingar eru á meðal best tengdu þjóða og við ætlum að vera á þeim stað áfram.