Lögaðilar landsins greiddu alls rúmlega 180 milljarða króna í opinber gjöld í ár vegna tekjuársins í fyrra. Rúmlega helmingur þess var í formi tryggingagjalds sem þó lækkaði um rúm fimm prósent milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Skattsins.

Samkvæmt tilkynningunni er álagningu á lögaðila lokið. Fjöldi lögaðila á skattgrunnskrá var 65.880 en þar af voru tæplega 18 þúsund lögaðilar sem undanþegnir eru greiðslu tekjuskatts. Fyrir lok framtalsfrests höfðu rúmlega 86% framtala skilað sér en það er örlítið hærra hlutfall en á síðasta gjald ári.

Alls greiddust 97 milljarðar króna í tryggingagjald en það er sem fyrr segir fimm prósentum lægra en í fyrra. Lækkunina má vafalaust að hluta rekja til afleiðinga faraldursins og úrræða honum tengdum á borð við frestun greiðslu opinberra gjalda og hlutabóta. Tekjuskattur nam 69,2 milljörðum og jókst um 1,46%. Þá nam fjármagnstekjuskattur lögaðila 3,4 milljörðum en það er 75% aukning frá fyrra ári.

Álagður sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, í daglegu tali nefndur bankaskattur nam 4,8 milljörðum en það er ríflega helmingi lægra en árið 2020. Sérstakur fjársýsluskattur nam 1,8 milljörðum og lækkaði um ríflega fimmtung. Álagt útvarpsgjald nam síðan 809 milljónum.

Alls námu álagningar 9,5 milljörðum lægri fjárhæð en síðasta gjald ár. Því til viðbótar fengu nýsköpunarfyrirtæki 9,7 milljarða endurgreidda vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar en það er 5,3 milljörðum meira en í fyrra.