Lögmannsstofan Logos hagnaðist um 431 milljón króna á síðasta ári, samanborið við 453 milljónir árið 2020. Minni afkoma skýrist af neikvæðum gengismun en tekjur og rekstrarhagnaður félagsins hækkuðu á milli ára. Stjórn félagsins leggur til að 450 milljónum verði úthlutað til eigenda yfir höfuðstól vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Tekjur Logos jukust um 6,7% á milli ára og námu tæplega 2,1 milljarði króna á síðasta ári. Rekstrarhagnaður án fjármagnsliða (EBITDA) fór úr 665 milljónum í 747 milljónir á milli ára.

Á síðasta ári störfuðu að meðaltali 56 starfsmenn hjá samstæðunni, samanborið við 59 árið áður, og námu launagreiðslur samtals 775 milljónum króna.

Eignir félagsins námu rúmum milljarði í lok síðasta árs. Eigið fé nam 455 milljónum og skuldir voru um 560 milljónir.