Sú ákvörðun hefur verið tekin hjá Póstinum að loka tímabundið fyrir vörusendingar til Bandaríkjanna vegna breytinga sem stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fyrirskipað á tollagjöldum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum en þar segir að mörg póstfyrirtæki hafi ákveðið að gera slíkt hið sama vegna breytinganna og má þar nefna PostNord og Austrian Post.
Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, segir að það þyki leitt að þurfa að taka þessa ákvörðun en að Pósturinn hafi ekki annarra kosta völ miðað við núverandi stöðu.
„Málið er ákaflega flókið og mörg tækniatriði sem þarf að huga að ef þessar fyrirhuguðu breytingar verða að veruleika 29. ágúst næstkomandi, eins og bandarísk stjórnvöld hafa gefið út. Við erum búin að leita allra mögulegra ráða til að leysa þetta en sjáum ekki fram á að það náist fyrir fimmtudaginn. Því var ákveðið að grípa til þess ráðs að loka tímabundið fyrir vörusendingar til Bandaríkjanna.“
Þórhildur segir að Pósturinn muni áfram taka við bréfum, skjölum og sendingum til Bandaríkjanna sem innihalda gjafir milli einstaklinga að hámarksverðmæti 100 dali, eða um 12.400 kr.
„Við erum á fullu að vinna að því að finna tæknilausn á málinu og upplýsum viðskiptavini okkar um leið og einhverjar breytingar verða.“
Pósturinn bætir við að þeir viðskiptavinir sem hyggjast senda vörusendingar til Bandaríkjanna áður en fyrirhugaðar breytingar taka gildi þurfi að koma sendingunum í póst fyrir kl. 12:00 mánudaginn 25. ágúst næstkomandi.