Í Viðskiptablaði vikunnar er fjallað ítarlega um Yrki, fasteignafélag Festi samstæðunnar. Meðal stórra verkefna sem félagið kemur að eru lóðir sem falla undir samkomulag Festi við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva frá árinu 2021.

„Þetta er margar hverjar eldri eignir sem hafa fundið sig í miðjum íbúðahverfum eftir áratuga byggðaþróun. Í dag henta sumar þeirra kannski betur undir eitthvað annað en bensínstöð og vilji Reykjavíkurborgar var að fækka þeim meðal annars til að byggja fjölbreyttar íbúðir,“ segir Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Yrkis, í viðtali í Viðskiptablaði vikunnar.

N1 hefur lokað þremur eldsneytisstöðum á grundvelli samkomulagsins; Ægisíðu 102, Skógarsel 10 og Stóragerði 40. Þar er áformað að samtals 105 íbúðir rísi auk nokkurra atvinnurýma.

Festi tilkynnti í síðasta mánuði um sölu á Skógarsel 10 og Stóragerði 40 til byggingarfyrirtækisins Sérverks ehf. fyrir einn milljarð króna, en bókfært verð eignanna tveggja var um hálfur milljarður.

„Við höfum verið að vinna þessi verkefni eins langt og við teljum skynsamlegt,“ segir Óðinn en Yrkir hafði unnið að þróun lóðanna í aðdraganda sölunnar. Í fjárfestakynningu Festi frá febrúar sl. má finna teikningar af mögulegu útliti íbúðabygginganna.

„Við höfum átt í samtali við Reykjavíkurborg um hvert mögulegt byggingarmagn getur orðið, grófa sýn á útliti eignanna og fleira. Við komumst á þann stað í skipulagsferlinu að við töldum okkur hafa góða hugmynd um hvað mætti fara á þessa reiti. Síðan seljum við þetta frá okkur með gögnum úr þeirri vinnu.“

Teikningar teknar úr fjárfestakynningu Festi frá febrúar sl. Áréttað var að útlit fasteignanna gæti tekið breytingum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Spurður hvort það hafi komið til greina fyrir fasteignafélagið að fara lengra með verkefnið og sjá um íbúðauppbygginguna sjálft, þá segir Óðinn að það sé alltaf möguleiki fyrir Yrki. Í þessu tilviki hafi verið talið skynsamlegra að leita að öðrum byggingaraðilum til að taka við verkefninu á þessu stigi.

Yrkir efndi til hugmyndaleitar vegna lóðarinnar við Ægisíðu 102 í fyrra og skiluðu þrjár arkitektastofur inn tillögum að hönnun og skipulagi. Valnefnd valdi síðan tillögu frá Trípólí sem var talin falla best að áformum um vinnu við deiliskipulag sem tekur mið af Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Óðinn vonast til að næstu skref varðandi uppbyggingu á lóðinni skýrist innan tíðar.

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Óðin í Viðskiptablaði vikunnar.