Undanfarin ár hefur stafræn umbreyting verið í brennidepli í íslensku atvinnulífi. Það er þó ekki sama hvernig fyrirtæki bera sig að við innleiðingu stafrænna lausna, að sögn ráðgjafa Intellecta. Fyrirtækið sérhæfir sig m.a. í ráðgjöf við fyrirtæki og stofnanir sem eru að innleiða ýmiss konar stafrænar lausnir inn í sinn rekstur. Að sögn Einars Þórs Bjarnasonar framkvæmdastjóra og ráðgjafanna Guðna B. Guðnasonar og Lísu Jóhönnu Ævarsdóttur hefur Covid-19 heimsfaraldurinn hraðað stafrænni þróun verulega innan íslensks atvinnulífs. Þegar fyrirtæki séu að fara af stað í stafræna umbreytingu þurfi að huga að ýmsu en það mikilvægasta sé að byrja á réttum enda.

„Það þarf að byrja á að greina ferla fyrirtækisins og hvernig árangursríkast sé að setja þá upp þannig að stafrænar lausnir gagnist sem best. Verkefnin okkar snúast mörg hver um að útbúa stöðumat á starfsemi fyrirtækja og hvernig hægt sé að byggja upp skilvirka ferla sem stafrænar lausnir styðja við. Tæknin kemur svo síðust inn, þegar búið er að vinna alla grunnvinnuna," útskýrir Guðni. „Við höfum verið að vinna í stafrænum verkefnum í áratugi. En sú vitundarvakning sem hefur átt sér stað undanfarin ár felst fyrst og fremst í því að fyrirtæki og stofnanir eru farin að uppgötva að það er hægt að nýta sér það að nærri allir landsmenn eru yfirleitt með nettengd tæki við höndina. Fólk er því orðið mjög móttækilegt fyrir því að afgreiða erindi sín við fyrirtæki eða stofnanir sjálft með rafrænum hætti."

Einar bendir á að starfsemi og verðmætasköpun fyrirtækja og stofnana byggi fyrst og fremst á ferlum. Því sé mikilvægt að fyrirtæki skilgreini vandlega ferla sína áður en farið er í að innleiða stafrænar lausnir inn í reksturinn. „Tæknin ræður ekki för heldur styður hún við það sem fyrirtækin ætla sér að ná fram. Í þessari umbreytingu er mikilvægt að breyttir ferlar og vinnulag geri tækninni kleift að styðja við það sem fyrirtækin ætla sér að gera, í stað þess að tæknin stjórni ferðinni."

Lísa segir að stafrænum verkefnum komi oft margir aðilar úr mismunandi áttum. Intellecta stigi oft inn í slík verkefni sem óháður ráðgjafi sem stýri og haldi utan um skipulag verkefnisins. „Það þjónar engum tilgangi að gera lélegt ferli stafrænt, heldur þarf að endurskipuleggja ferlin og bæta þau áður en lengra er haldið."

Hið opinbera leiðandi í stafrænni þróun

Guðni segir athyglisvert hve leiðandi hið opinbera hefur verið í stafrænni þróun íslensks atvinnulífs. „Fyrir Covid stóð Ísland frekar höllum fæti í þáttum tengdum stafrænum lausum í samanburði við þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við. Eftir að Covid skall á með fullum þunga, ákvað hið opinbera að lyfta grettistaki og setja umtalsverða fjármuni í þróun og uppbyggingu stafrænna lausna innan opinbera geirans." segir hann og vísar þar til Stafræns Íslands, verkefnis sem ætlað er að stuðla að því að gera opinbera þjónustu skilvirkari og notendavænni. „Þinglýsingar verða t.d. bráðum orðnar rafrænar og ýmsir aðrir þættir í starfsemi hins opinbera verða það sömuleiðis. Það eru enn veruleg tækifæri til að skapa enn frekara hagræði með notkun stafrænna lausna hjá hinu opinbera og sú vinna er í fullum gangi," bætir hann við.

Einar segir Intellecta jafnframt hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að auka skilvirkni í starfsemi sinni með sjálfvirknivæðingu ferla. Síendurteknir, tímafrekir og staðlaðir ferlar séu tilvaldir fyrir sjálfvirknivæðingu. „Við notum tól eins og skjalagreiningu, gervigreind og RPA (e. Robotics Process Automation) til að sjálfvirknivæða ferlana." Meðal sjálfvirknivæðilausna Intellecta sé róbótinn RóBond 001 sem hermi eftir handavinnu starfsmanns við framkvæmd síendurtekinnar vinnu. „Það er hægt að láta róbótabóka reikninga, setja upp yfirlit og flokka. Einnig er hægt að nýta hann í afstemmingum birgja og lánadrottna, afstemmingu bankaog kortayfirlita svo og í móttöku og bókun reikninga. Möguleikarnir eru í raun ótakmarkaðir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .