Frakk­lands­for­seti Emmanuel Macron stendur frammi fyrir sí­fellt þrengri stjórnar­mögu­leikum þar sem François Bayrou, fjórði for­sætis­ráðherra hans á tveimur árum, gæti misst traust þingsins í fyrir­hugaðri at­kvæða­greiðslu 8. septem­ber.

Bayrou setti málið sjálfur á dag­skrá fyrr í vikunni í von um að styrkja stöðu sína og fá þingið til að styðja áætlun um að draga úr halla­rekstri ríkisins. Margir telja þó lík­legt að hann tapi at­kvæða­greiðslunni.

Macron hefur opin­ber­lega hvatt þing­menn til að styðja Bayrou en á sama tíma rætt við banda­menn um næstu skref, þar á meðal mögu­lega nýjan for­sætis­ráðherra sem gæti komið fjár­lögum 2026 í gegnum þingið án frekari pólitísks óstöðug­leika.

Ef Bayrou fellur þarf Macron að velja milli þess að skipa annan for­sætis­ráðherra úr eigin her­búðum, snúa sér til miðhægri stjórn­mála­manna eða reyna nýja nálgun með hófsömum sósíalistum.

Í öllum til­fellum yrði um minni­hluta­stjórn að ræða og í versta falli gæti Macron þurft að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.

Bayrou náði í febrúar að fá samþykkt niður­skorið fjár­laga­frum­varp með því að sann­færa sósíalista um að sitja hjá en þeir hafa þegar hafnað nýju áætluninni sem gerir ráð fyrir 44 milljarða evra niður­skurði og skatta­hækkunum.

Vaxandi þrýstingur á fjár­málamörkuðum

Franska ríkið stendur frammi fyrir miklum halla­rekstri sem nam 5,8 pró­sentum af lands­fram­leiðslu í fyrra, vel um­fram 3 pró­senta mörk Evrópu­sam­bandsins.

Vaxta­kostnaður ríkis­sjóðs er áætlaður 66 milljarðar evra á þessu ári og verður þá stærsti út­gjaldaliður ríkisins, um­fram mennta­mál og varnar­mál.

Óvissan hefur þegar haft áhrif á skulda­bréfa­markaði. Ávöxtunar­krafa á frönsk ríkis­skulda­bréf hefur hækkað og bæði skulda­bréfa- og hluta­bréfa­markaðir sveifluðust eftir að Bayrou til­kynnti um at­kvæða­greiðsluna.

Óvissa er um stjórn landsins til 2027

Macron, sem hefur tveggja ára kjörtíma­bil eftir, hefur verið sakaður um að valda krísunni sjálfur eftir að missa þing­meiri­hluta í fyrra.

Ef ekki tekst að koma fjár­lögum í gegnum þingið í ár gæti það orðið annað árið í röð sem fjár­lög dragast fram yfir áramót, sem myndi auka óvissuna enn frekar og þrýsta á for­setann að boða til nýrra kosninga.

Margir stjórn­mála­skýrendur telja að Macron þurfi annaðhvort að skipa for­sætis­ráðherra sem nýtur víðtæks stuðnings eða að nota stjórnar­skrár­heimild til að rjúfa þingið og endur­nýja pólitískt um­boð sitt áður en for­seta­kosningar fara fram 2027.