Magnús Scheving Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Íshesta og fyrrverandi forstjóri Klakka, hefur verið dæmdur til að greiða 16,1 milljón króna í sekt vegna skattalagabrots. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn í síðustu viku. Við ákvörðun á refsingu leit dómurinn til þess að Magnús hafði greitt að fullu endurákvörðuð gjöld skattayfirvalda.

Málið var höfðað af héraðssaksóknara með ákæru útgefinni 11. mars 2021 fyrir brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir árin 2016 og 2017.

Héraðssaksóknari hélt því fram að Magnús hafi ekki talið fram tekjur að fjárhæð samtals 57,7 milljónum króna frá einkahlutafélaginu Pólstjörnunni sem hann á að fullu. Með þessu hafi hann komist undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 26,25 milljónir króna eða eftir atvikum fjármagnstekjuskatt að fjárhæð samtals 11,5 milljónir.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf í nóvember 2018 rannsókn á tekjum og skattskilum Magnúsar vegna tekjuáranna 2014-2017. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að Magnús skilaði efnislega röngum skattframtölum fyrir tekjuárin 2014-2017. Tekjur hafi verið vanframtaldar tekjuárið 2015 vegna greiðslna í tengslum við vinnu í þágu slitastjórnar Glitnis. Greiðslur frá Pólstjörnunni ehf. hafi verið vanframtaldar og við úthlutun fjármuna úr félaginu til ákærða hafi ekki verið fylgt reglum um úthlutun arðs.

Tölulegar niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra voru þær að vanframtaldar launatekjur Magnúsar hafi verið um 33,5 milljónir og vanframtaldar tekur frá Pólstjörnunni ehf. hafi verið 95 milljónir króna.

Í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara í apríl 2020 sagði Magnús að það hafi dregist að skila inn ársreikningum fyrir Pólstjörnuna. Magnús sagði að tekjur, sem hann hafi fengið fyrir ráðgjafarstörf, hafi að einhverju leyti runnið inn í Pólstjörnuna og félagið hafi verið í fjárfestingarstarfsemi en áður hafi það verið eignarhaldsfélag. Aðspurður sagði Magnús að greiðslur að fjárhæð 79,2 milljónir króna á árunum 2014-2017 frá Pólstjörnunni ehf. til ákærða hafi verið arðgreiðslur fyrir umrætt tímabil.

Magnús sagði að skattframtölum og ársreikningum fyrir Pólstjörnuna ehf. fyrir árin 2016 og 2017 hafi verið skilað eftir að rannsókn hófst á skattskilum ákærða en það hafi alltaf legið fyrir að þessum gögnum yrði skilað og skattur greiddur.

Héraðsdómur taldi sannað að Magnús hafi vanframtalið 40,2 milljónir króna og „þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi með því komið sér hjá greiðslu fjármagnstekjuskatts“ upp á 8 milljónir króna. Var miðað við þá fjárhæð við varakröfu ákæruvaldsins. Sektarfjárhæð var tvöföld sú fjárhæð sem Magnús stóð ekki skil á.