Magnús Þór Ásmundsson hefur verið ráðinn í starf forstjóra RARIK og tekur hann við starfinu þann 1. maí næstkomandi af Tryggva Þór Haraldssyni sem hefur verið forstjóri RARIK í nítján ár. Í tilkynningu RARIK segir Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður, að stjórnin hafi verið einróma um ráðningu Magnúsar.
Magnús hefur frá því um mitt ár 2020 starfað sem hafnarstjóri Faxaflóahafna. Þar áður var hann hjá Alcoa Fjarðaáls á árunum 2009-2019, fyrst sem framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar en frá árinu 2011 gegndi hann stöðu forstjóra. Magnús starfaði hjá Marel á árunum 1990-2009, síðast sem framkvæmdastjóri framleiðslu.
Magnús hefur setið í stjórn Viðskiptaráðs og í stjórnum Háskólans í Reykjavík og Tækniskólans. Hann hefur jafnframt setið í stjórn Landsnets frá árinu 2020. Hann er jafnframt einn af stofnendum ferðaþjónustufyrirtækisins Vök baths á Egilsstöðum og situr í stjórn fyrirtækisins.
Magnús lauk námi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og meistaraprófi frá Danmarks Tekniske Universitet 1990.
„Framundan eru spennandi tímar hjá RARIK, áskorun verður að fylgja eftir markmiðum um orkuskipti og loftslagsmál. Jafnframt er mikilvægt að tryggja áframhaldandi framfarir og uppbyggingu á tímum mikilla breytinga og tækniframfara,“ segir í tilkynningu RARIK