David Erik Mollberg hefur verið ráðinn sérfræðingur í máltækni og vöruþróun hjá máltæknifyrirtækinu Tiro. David lauk nýverið MS.c gráðu í máltækni frá Háskólanum í Reykjavík, þar sem lokaverkefni hans snéri að því að sníða talgreini sem gat ráðið við orð sem komu ekki fyrir í þjálfunargögnum.
Meðfram námi sínu í máltækni stundaði hann rannsóknarstörf innan Mál- og raddtæknistofu gervigreindarseturs HR. Þar leiddi hann þróun og söfnun gagna í gegnum Samromur.is þar sem allir íslenskumælendur voru hvattir til að leggja rödd sinni lið. Sú söfnun gekk framar björtustu vonum og veður mikilvægt framlag til að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi, að því er segir í fréttatilkynningu.
David var áður virkur í Landssamtökum íslenskra stúdenta, bæði sem formaður og gæðastjóri, en hann situr nú í stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna á þeirra vegum. Hann hefur einnig hlotið viðurkenningar fyrir þátttöku sína í frumkvöðlakeppninni Gulleggið árið 2018 og fyrstu verðlaun í samevrópskri frumkvöðlakeppni árið 2014.
Í starfi sínu innan Tiro mun David styrkja teymið sem sinnir þróun talgreina til að efla og auka notkunarmöguleika þeirra sem eru nú þegar til staðar innan fyrirtækisins. David mun jafnframt sinna mikilvægu hlutverki í vöruþróun á sviði talgreiningar og talgervingar.
„Það liggja mikil tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki til að bæta líf sitt og störf með tilkomu máltæknilausna sem skilja íslensku. Það er því afskaplega spennandi að starfa á þessu sviði um þessar mundir,“ er haft eftir David.
Tiro er ört vaxandi fyrirtæki sem hefur unnið að máltæknilausnum, sérstaklega á svið talgreiningar frá árinu 2014. Stefna fyrirtækisins er að vera leiðandi á svið taltækni fyrir íslensku. Fyrirtækið hefur byggt upp einn öflugasta talgreini fyrir íslensku sem þróaður hefur verið og stefnir ótrautt að því að útfæra lausnir byggðar á honum fyrir íslensku í stafrænu umhverfi.