Samkvæmt fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands benda framvirkir vaxtaferlar á skuldabréfamörkuðum til þess að markaðsaðilar eigi von á því að meginvextir muni lækka á öðrum ársfjórðungi.
Mun það vera í samræmi við könnun Seðlabankans meðal markaðsaðila í janúar. Fjármálaleg skilyrði, bæði hér á landi og erlendis, fara að því leyti batnandi, segir í skýrslunni.
„Framvirkir vaxtaferlar á skuldabréfamörkuðum benda til þess að markaðsaðilar telji að seðlabankavextir í helstu iðnríkjum hafi náð hámarki og að vextir taki að lækka á fyrri hluta þessa árs. Birtist aukin bjartsýni meðal annars í lækkandi ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa,“ segir í fjármálastöðugleika.
Í Evrópu hefur beitingu þjóðhagsvarúðartækja verið frekar í þá átt að slaka á kröfum en herða. Krafa um sveiflujöfnunarauka hefur þó verið hækkuð í Belgíu, Lettlandi og Slóveníu og nokkur ríki hafa innleitt sértækan kerfisáhættuauka, segir í skýrslunni.
Á móti hafa stjórnvöld í nokkrum ríkjum létt á lánþegaskilyrðum, til dæmis í Eistlandi, Tékklandi og Portúgal.
„Eru þessar ákvarðanir yfirleitt rökstuddar með því að verulega sé að hægja á markaði með íbúðar- og atvinnuhúsnæði.“