Ingunn Guðmundsdóttir, fyrrverandi eigandi Pylsuvagnsins á Selfossi var meðal þeirra Íslendinga sem voru með mestar fjármagnstekjur í fyrra. Alls námu fjármagnstekjur hennar 178 milljónum króna.

Ingunn var skráð sem eini eigandi Pylsuvagnsins Selfossi ehf. í lok árs 2023 en í dag er Snorri Sigurðsson athafnamaður skráður sem eini eigandi fyrirtækisins.

Vísir frá því í fyrra að Snorri, sem er stjúpsonur Ingunnar, og Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Árborg, myndu taka við rekstrinum 1. janúar 2025 af Ingunni og dóttur hennar, Þórdísi Sólmundardóttur.

Í frétt Sunnlenska kemur fram að Ingunn hafi stofnað fyrirtækið árið 1984 og í upphafi hafi húsnæðið einungis verið um þrír fermetrar og ein manneskja sem stóð vaktina. Í dag sé húsnæðið aftur á móti 98 fermetrar og starfsmennirnir 35 talsins.

Ársreikningur félagsins fyrir árið 2024 hefur ekki verið birtur en Pylsuvagninn velti 234 milljónum króna árið 2023 og hagnaðist um 14 milljónir. Eignir voru bókfærðar á 31 milljón í árslok 2023 og eigið fé nam 18 milljónum. Félagið greiddi ríflega 14 milljónir í arð í fyrra.

Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.