Smári Ríkarðsson, framkvæmdastjóri vátryggingamiðlunarinnar Tryggja, og Baldvin Arnar Samúelsson, sem situr í stjórn fyrirtækisins, voru hvor um sig með 427 milljónir króna í fjármagnstekjur í fyrra.

Smári og Baldvin áttu jafnan hlut í tryggingarfélaginu þegar það var selt til tryggingasamstæðunnar GGW Group í Þýskalandi í fyrra.

Tryggja greiddi 138 milljónir króna í arð árið 2024. Fyrirtækið hagnaðist um 39 milljónir króna í fyrra, samanborið við 90 milljónir árið 2023. Velta dróst þá saman milli ára og fór úr 722 milljónum árið 2023 í 699 milljónir árið 2024. Eignir félagsins voru bókfærðar á 510 milljónir króna í árslok 2024 og eigið fé nam 125 milljónum.

Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.