Íslenska ferðaþjónustan hefur tekið hratt við sér á síðustu misserum og hefur farþegafjöldi verið töluvert umfram spár. Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll í síðasta mánuði voru álíka margar og í júní 2018 sem var metár. Bandaríkjamenn voru langstærsti hópur farþega, eða um 43% af heildinni, en eftirspurn á Norður-Ameríkumarkaði hefur verið afar mikil í ár.
Sætanýting hjá Icelandair í flugi til og frá Norður-Ameríku var um 90% í júní og hefur aldrei verið meiri í júnímánuði.
Grímur Gíslason, forstöðumaður Norður-Ameríkumarkaðar hjá Icelandair, segir að flugfélagið finni fyrir miklum áhuga á Íslandi. Hann rekur mikla eftirspurn vestanhafs m.a. til uppsafnaðrar ferðaþrár eftir Covid-faraldurinn, vel heppnaðs markaðsstarfs og sterkrar stöðu Íslands sem áfangastað.
„Það eru fleiri þættir sem spila þarna inn í. Dollarinn hefur verið sterkur gagnvart krónunni síðasta árið þó hann hafi veikst aðeins á síðustu vikum. Fyrir vikið hefur verið hagstæðara en ella fyrir Bandaríkjamenn að ferðast hingað.“
Á meðan faraldurinn stóð yfir spáðu ýmsir aðilar á borð við IATA, Alþjóðasamtök flugfélaga, því að það gæti tekið nokkur ár þar til fyrra metári yrði náð. Óhætt er að segja að fluggeirinn hafi tekið á loft mun fyrr en margir leyfðu sér að vona.
Grímur segir að þó almennt hafi ferðalög aukist hratt að undanförnu þá sé ákveðinn hluti fluggeirans ekki búinn að ná upp fyrri styrk líkt og í tilfelli viðskiptatengdra ferðalaga. Slík ferðalög kunni að verða hlutfallslega færri eftir faraldurinn vegna breyttra þarfa og neysluvenja.
Hins vegar gæti færst í aukana að fólk tengi ferðalög í viðskiptalegum tilgangi við frí og að þar geti legið tækifæri fyrir Ísland. Það sama megi segja um Ísland sem áfangastað fyrir fjarvinnu. Icelandair býður upp á svokallað „Stopover“ þar sem farþegum yfir Atlantshafið gefst kostur á að stoppa á Íslandi í allt að sjö nætur án aukagjalds.
Bætt í flugáætlunina
Icelandair flýgur í dag til 15 áfangastaða í Norður-Ameríku. Flugfélagið hefur bætt við sig tveimur nýjum áfangastöðum í Norður-Ameríku eftir Covid-faraldurinn, annars vegar Raleigh-Durham í Norður-Karólínufylki og hins vegar Detroit í Michigan-fylki.
Grímur segir að Icelandair hafi einnig bætt í áætlun sína á helstu áfangastaðina. Félagið er með þrjú flug á dag til Boston, þrjú flug á JFK flugvöllinn í New York og tvö dagleg flug til Seattle og Washington.
„Við erum að bæta við flugum á þessa staði og á öðrum tímum en áður til þess að létta undir og minnka álag ásamt því að bjóða viðskipavinum okkar fleiri valmöguleika. Þess má geta að Icelandair er í dag með fleiri ferðir til Norður-Ameríku en öll hin Norðurlöndin til samans.“
Fréttin er hluti af lengra viðtali við Grím um leiðarkerfi Icelandair í Norður-Ameríku, enduropnun söluskrifstofa og fleira. Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.