Árið sem er að líða var viðburðaríkt, og umfjöllunarefni Viðskiptablaðsins bæði mörg og misjöfn. Hér er listi yfir þær fréttir sem prýða 6.-10. sætið yfir mest lesnu innlendu fréttir ársins 2023.

6. Seldu blokk á 1,9 milljarða

Viðskiptablaðið sagði frá sölu Austurhóla ehf. á 40 íbúða fjölbýlishúsi á Selfossi til félagsins Austurhóla 4 ehf. á 1,87 milljarða króna. Á bak við seljandann eru þrjú félög, þar á meðal Hvíthöfði ehf., félag í eigu Kára Árnasonar fyrrum landsliðsmanns í knattspyrnu.

7. Notar mismuninn til að kaupa sumarbústað

Páll Pálsson, fasteignasali og mögulegur forsetaframbjóðandi, ræddi í sumar við Viðskiptablaðið um eftirspurn eftir sumarbústöðum. Hann sagði marga kaupendur nota afgangsfé til að kaupa sér sumarbústað eftir að hafa minnkað við sig á höfuðborgarsvæðinu.

8. Atli Örvars klífur upp listann með tæpan milljarð

Tónskáldið Atli Örvarson var í þrettánda sæti á lista Viðskiptablaðsins yfir þá 150 einstaklinga sem voru með hæstu fjármagnstekjurnar á árinu 2022. Einn annar tónlistarmaður er á listanum.

9. „Almenningur hefur tekið mjög vel í þetta“

Vefverslunin Bara Spara fór í loftið í sumar. Arnar Reyr Kristinsson, rekstrarstjóri Bara Spara, segir tilgang netverslunarinnar vera að bjóða upp á nauðsynjavörur á sem hagkvæmasta verði.

10. „Óskiljanlegt og líklega heimildarlaust"

Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður, blandaði sér í umræðuna um deilu Eflingar og ríkissáttasemjara. Hann furðaði sig á ákvörðun Aðalsteins Leifssonar, þáverandi ríkissáttasemjara að semja við Eflingu um að fara ekki með mál um lögmæti miðlunartillögunnar fyrir hæstarétt.