Míla hefur hafið prófanir á nýrri kynslóð háhraðatenginga undir heitinu 25x. Tæknin byggir á nýrri aðgangstækni sem heitir 25GPON og býður fyrirtækjum allt að 20 gígabita á sekúndu nethraða, sem er tvöfalt meiri hraði en núverandi lausnir á markaðnum bjóða upp, að því er kemur fram í tilkynningu.
Prófanir fara nú fram á ákveðnu þjónustusvæði þar sem fjarskiptafélög fá tækifæri til að prófa „þessa byltingarkenndu nýjung“.
„Með 25x vettvangnum er stigið mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu framtíðarinnviða sem styrkja íslenskt atvinnulíf og stuðla að aukinni samkeppnishæfni á alþjóðavettvangi.“
25x tengingar eru sérstaklega hannaðar fyrir fyrirtæki sem starfa í umhverfi þar sem gagnaflutningar eru miklir og kröfur til tenginga háar, svo sem gagnaver, skýjaþjónustur og fyrirtæki í fjölmiðla- og tæknigeiranum.
„Við erum afar stolt af því að geta boðið upp á fyrstu prófanir á 25GPON tengingum á Íslandi,“ segir Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu. „Þessi tækni gerir okkur kleift að mæta ekki bara þörfum nútímans heldur einnig þeim kröfum sem munu móta íslenskt atvinnulíf næstu tíu árin. Við erum að undirbúa íslenskt samfélag og atvinnulíf fyrir nýja stafræna tíma þar sem hraði, öryggi og sveigjanleiki ráða för.“