Kínverjar undirbúa sig nú fyrir stórfellda hersýningu sem haldin verður í Peking í næsta mánuði til að minnast þess að 80 ár eru liðin frá endalokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Tugir þúsunda gesta verða samankomnir til að fylgjast með hermönnum og nýjum vopnum.
Hin 70 mínútna hersýning verður haldin 3. september nk. en japanski herinn gafst formlega upp á bandarísku herskipi við Tókíóflóa þann 4. september 1945.
Að sögn embættismanna á blaðamannafundi mun kínverski herinn frumsýna ný hátæknivopn, þar á meðal eldflaugar sem geta ferðast á fimmföldum hljóðhraða, ásamt orrustuþotum og sprengjuflugvélum.

Síðasta stórfellda hersýning kínverska hersins var haldin árið 2015 en síðan þá hefur hernaðarstyrkur Kína aukist jafnt og þétt. Nágrannaþjóðir Kína og Vesturlandaríki munu því að öllum líkindum fylgjast náið með sýningunni.
Búast megi við því að bandaríski herinn muni fylgjast sérstaklega vel með uppfærðum vopnum sem hafa þann tilgang að ráðast gegn herskipum sem gætu þurft að bregðast við mögulegri innrás kínverska hersins í Taívan.
Á síðustu sýningu buðu kínversk stjórnvöld fjölmörgum leiðtogum frá löndum eins og Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Mongólíu og Kambódíu til að fylgjast með. Nokkrir frá Taívan, sem börðust gegn japanska hernum á sínum tíma, voru einnig viðstaddir.
Margir þjóðarleiðtogar, þar á meðal Shinzo Abe þáverandi forsætisráðherra Japans, ákváðu að forðast viðburðinn árið 2015 en meðal gesta voru Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslari Þýskalands, og Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.