Bandaríska streymisveitan Netflix hefur í fyrsta sinn opinberað áhorfendatölur sem nær yfir 99% af því efni sem finna má á veitunni. Fyrirtækið hefur áður fyrr verið gagnrýnt fyrir gegnsæisleysi þegar kemur að slíkum upplýsingum.
Samkvæmt gögnum horfðu notendur lengst á bandaríska þáttinn The Night Agent eða í um 812 milljón klukkutíma. Þættir eins og Wednesday og Queen Charlotte voru einnig ofarlega á listanum.
Gagnrýnin um gegnsæisleysi Netflix var einn af miðpunktum verkfallsins sem fór fram í Hollywood á þessu ári og setti framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsþátta í lamasess í nokkra mánuði. Leikarar og handritshöfundar kröfðust hærri þóknana fyrir þætti sem stóðu sig vel á streymisþjónustum.
Ted Sarandos, framkvæmdastjóri Netflix, viðurkenndi á símafundi með blaðamönnum að það væri skortur á gagnsæi um vinsældir þátta. Hann bætti þó við að Netflix hafi haldið þeim gögnum leyndum á meðan verið var að byggja upp fyrirtækið svo það gæti gert tilraunir án þess að gefa upp mikilvægar upplýsingar til keppinauta.
„Þetta er stórt skref fyrir bæði Netflix og iðnaðinn okkar. Við trúum því að þessi skýrsla muni veita okkur betri innsýn í áhorfendur okkar og hvað þeir vilja,“ segir í bloggfærslu frá fyrirtækinu. Netflix er með tæplega 250 milljónir áskrifenda um allan heim og er því stærsta streymisþjónusta í heimi.