Ný endurhönnuð útgáfa af bresku myntinni mun meðal annars hafa það verkefni að hjálpa börnum að læra að telja.

Konunglega myntsláttan (e. The Royal Mint) segir að myntin, sem fer í umferð í lok ársins, mun innihalda stórar tölur sem auðvelt verður að bera kennsl á ásamt gróðri og dýralífi landsins.

„Stóru tölurnar verða mjög aðlaðandi fyrir börn sem eru að læra að telja og læra um notkun peninga. Einnig munu dýrin og allt sem þú sérð á þessum myntum höfða til barna,“ segir Rebecca Morgan, forstjóri myntsláttunnar.

Ásamt því að sýna mynd af Karli þriðja Bretakonungi þá munu myntirnar sýna dýr eins og rauða íkorna og rjúpu. Myntsláttan segir það bráðnauðsynlegt að endurhanna myntina þar sem notkun hennar hefur minnkað undanfarið.

„Við vitum að stór hluti landsins er enn mjög háður reiðufé. Það er líka hefð fyrir því að merkja tímabreytingar konungsfjölskyldunnar á myntseðla og það er mikilvægt að við höldum þeirri hefð áfram,“ bætir Rebecca við.