Tveir erfingjar Vilhjálms Árnasonar, eins stofnenda Fiskveiðihlutafélagsins Venusar, þurfa að greiða hvor um 22 milljónir króna til viðbótar í fjármagnstekjuskatt vegna sölu á bréfum sínum í félaginu árið 2013. Þetta felst í úrskurði yfirskattanefndar (YSKN) sem staðfesti með því ákvörðun Skattsins.
Umrætt mál má rekja allt aftur til stofnunar Venusar árið 1936. Í hópi stofnenda var fyrrnefndur Vilhjálmur en börn hans, þau Sigríður, Kristín og Árni, iðulega kenndur við Hval, skiptu hlut hans jafnt á milli sín við andlát föður síns. Árni lést árið 2013 og afréð ekkja hans, Ingibjörg Björnsdóttir, þá að selja bréf bús þeirra hjóna í félaginu. Slíkt hið sama gerði Kristín en þá var hún 83 ára gömul.
Af úrskurði YSKN má ráða að söluverð 12,5% hlutar hvorrar um sig hafi verið 1,1 milljarður króna. Á skattframtali vegna ársins 2013, sem unnið var af endurskoðanda, gerðu þær grein fyrir söluverði hlutarins sem og stofnverði bréfanna uppreiknuðu samkvæmt verðbreytingarstuðlum stofn- og kaupára. Var skattur greiddur í samræmi við það árið 2014.
Rúmlega fjórum árum síðar barst mágkonunum bréf frá Skattinum þar sem skýringa var óskað á umræddum skattskilum. Taldi Skatturinn að stofnverð hlutabréfanna hefði verið ofreiknað þar sem láðst hafi að taka tillit til myntbreytingarinnar, það er að reikna verðið úr gömlum krónum í nýkrónur, í upphafi árs 1981. Leiddi þetta til þess að hagnaður hefði verið vantalinn um tæpar 106 milljónir króna. Álag var ekki lagt á vantalinn skattstofn.
Í kæru til YSKN var byggt á því að tekjuskattslög væru þögul um slíkt verklag og vafann bæri því að túlka gjaldanda í hag. Einnig var byggt á því að sex ára frestur til endurákvörðunar ætti ekki við heldur tveggja ára frestur þar sem öllum nauðsynlegum gögnum hefði verið skilað árið 2014.
Á þetta var ekki fallist. Skylduna til umreiknings væri að finna í lögum um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils frá 1979, þau lög er að finna í skattalagasafni Skattsins, og sú skylda hefði einnig verið ítrekuð á leiðbeiningarblöðum stjórnvaldsins. Þá var leitt í ljós að gögn um söluna hefðu ekki borist til Skattsins eða þau í það minnsta ekki færð í skjalavörslukerfi stofnunarinnar. Var það mat YSKN að þar sem umrætt framtal hefði verið unnið af sérkunnáttumönnum, það er endurskoðunarstofu, hefði Skatturinn mátt leggja aukið traust á að upplýsingarnar væru réttar. Var því talið að sex ára frestur gilti um endurákvörðunina.
Þær mágkonur töldu sig hafa staðið skil á sínu og kom það þeim því á óvart að Skatturinn hefði gert athugasemdir við skattskilin rúmum fjórum árum síðar. „Fyrir mitt leyti finnst mér skrítið að vafinn sé túlkaður Skattinum í hag þegar lögin eru ekki afdráttarlaus um þetta. Maður hefði haldið að borgarinn ætti að njóta vafans,“ segir Ingibjörg við Viðskiptablaðið.