Nýjustu rannsóknir benda til að Eli Lily sé að sigra kapp­hlaupið um að koma þyngdar­stjórnunar­lyfi í töflu­form.

Bandaríska lyfja­fyrir­tækið hefur birt nýjar niður­stöður sem sýna að þyngdar­stjórnunar­lyfið or­for­glipron, sem tekið er í töflu­formi, náði mark­miðum sínum í klínískri rannsókn á sykursýkis­sjúklingum í yfir­þyngd.

Meðalþátt­takandi missti 10,5 pró­sent af líkams­þyngd sinni sem fyrir­tækið segir afar jákvæðar fréttir þar sem sykursýki gerir þyngdar­tap oft erfiðara.

Kenneth Cu­ster, fram­kvæmda­stjóri hjá Eli Lilly, segir í til­kynningu að niður­stöðurnar opni á um­sókn um markaðs­leyfi hjá mat­væla- og lyfja­eftir­liti Bandaríkjanna, FDA, síðar á þessu ári.

Ef allt gengur eftir gæti samþykki fengist á næsta ári og þá væri þetta fyrsta lyfið í töflu­formi af nýju kynslóðinni af þyngdar­stjórnunar­lyfjum sem fengi grænt ljós.

Or­for­glipron er í beinni sam­keppni við Novo Nor­disk, sem sótti um markaðs­leyfi í maí fyrir eigið þyngdar­tapa­lyf í töflu­formi.

Í til­raunum Novo Nor­disk misstu sykursýkis­sjúklingar að meðaltali 9,2 pró­sent líkams­þyngdar, sem er nokkuð minna en nýjustu niður­stöður Eli Lilly sýna.

Fyrri til­raunir Eli Lilly með fólk án sykursýki skiluðu 12,4 pró­senta meðalþyngdar­tapi, sem var neðri mörkum væntinga markaðarins og olli von­brigðum hjá fjár­festum fyrr í mánuðinum.

Lyf í töflu­formi eru mun ódýrari

Ef lyfið fær samþykki verður það fyrsta þyngdar­stjórnunar­lyfið í töflu­formi af nýjustu kynslóðinni. Það gæti haft mikla þýðingu því sprautu­lyfin sem nú eru á markaði þurfa kælingu og eru dýrari í fram­leiðslu og dreifingu.

„Það er aug­ljóst að við getum ekki náð til eins margra og þarf með sprautu­lyfjum ein­göngu,“ sagði Cu­ster og benti á að yfir einn milljarður manna gæti haft gagn af slíkum lyfjum.

Þrátt fyrir nýju niður­stöðurnar hafa fjár­festar verið varfærnir. Hluta­bréf Eli Lilly hafa lækkað um 10,6 pró­sent frá áramótum, en hluta­bréf Novo Nor­disk hafa fallið um nærri 44 pró­sent á sama tíma.

Eftir von­brigðaniður­stöður í síðustu til­raun keyptu stjórn­endur og stjórnar­menn Eli Lilly sam­tals bréf fyrir 4,5 milljónir dala, sem er mesta inn­kaup þeirra frá árinu 2019.

Markaðurinn bíður nú eftir því hvort FDA samþykki or­for­glipron og opni þannig nýja vídd í með­ferð við of­fitu.