Bandaríska sjóðastýringarfyrirtækið Oaktree Capital er að undirbúa tilboð í knattspyrnuliðið Chelsea, samkvæmt heimildum Financial Times . Oaktree bætist þar við hóp af fjárfestum sem hafa lýst yfir áhuga á að kaupa Chelsea af Roman Abramovich sem setti félagið í söluferli í byrjun mánaðar.

Oaktree stefnir á að bjóða sjálfstætt í breska knattspyrnuliðið en er þó opið fyrir að taka höndum saman með öðrum fjárfestum. Sjóðastýringarfyrirtækið á fótboltafélagið Caen sem spilar í næstefstu deild Frakkalands.

Oaktree, sem er með 166 milljarða dala í stýringu, setti á fót sérhæfða yfirtökufélagið (SPAC) Oaktree Acquisition II Corp árið 2020. Í lok síðasta árs var tilkynnt um að SPAC félagið myndi sameinast íslenska líftæknilyfjafyrirtækinu Alvotech.

Meðal annarra fjárfesta sem hafa sýnt áhuga á að kaupa Chelsea eru Todd Boehly, meðeigandi hafnarboltaliðsins Los Angeles og bandaríski milljarðamæringurinn Josh Harris, meðstofnandi fjárfestingasjóðsins Apollo Global Management. Í gær sagðist Ricketts fjölskyldan, sem á hafnarboltaliðið Chicago Cubs, að von væri á tilboði frá fjárfestahópi á þeirra vegum á morgun. Vogunarstjórinn Ken Griffin, stofnandi Citadel, er hluti af þeim hópi.