Í umsögn til stjórnvalda um áform um atvinnustefnu Íslands til ársins 2035 leggur Ísteka ehf. áherslu á að atvinnulíf framtíðarinnar þurfi stöðugt og einfalt starfsumhverfi.
Fyrirtækið varar sérstaklega við ófyrirsjáanleika og að stjórnvöld gangi lengra en þörf er á í reglusetningu, sem geti letjað fjárfestingar og vaxtarmöguleika.
Ísteka framleiðir virkt lyfjaefni (API) til að bæta framleiðni og velferð búfjár sem dregur jafnframt úr kolefnisfótspori í nútímalandbúnaði. Afurðir Ísteka eru framleiddar úr blóði stóðhryssna.
„Fjárútlát hins opinbera í átaksverkefni í atvinnugreinum geta verið réttlætanleg til skamms tíma. Það er hins vegar ekki eðlilegt að arðbærar atvinnugreinar geti sótt fé í sameiginlega sjóði ár frá ári og þær séu þannig allt að því á opinberu framfæri,” segir í umsögninni sem Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, skrifar undir.
Í umsögninni segir að íslensk stjórnvöld hafi í sumum tilvikum tekið upp evrópskar reglugerðir með meiri íþyngjandi hætti en nauðsyn krefur.
Sérstaklega er nefnt að ákvörðun fyrrverandi matvælaráðherra um að fella blóðtöku úr hryssum undir reglur um tilraunadýrahald hafi skapað óvissu í atvinnugrein sem byggir á áratugalangri reynslu og eftirliti.
Félagið bendir á að slíkur ófyrirsjáanleiki sé meðal helstu ástæðna þess að bændur veigri sér við að hefja blóðtöku, sem er forsenda fyrir aukinni hátæknilyfjaframleiðslu og útflutningstekjum Ísteka.
„Málmhúðun Evrópureglugerða og annars regluverks Íslendinga felst í því að við göngum lengra en okkur ber og skynsamlegt er að gera, m.a. út frá samkeppnissjónarmiðum. Ákvörðun fyrrverandi matvælaráðherra um að fella afurðaframleiðslugrein eins og blóðnytjarnar undir Evrópureglugerð um tilraunadýrahald er eitt dæmi þessa. Atvinnugreinin byggist á gagnreyndri aðferðafræði en ekki tilraunum. Lífsgæði og lífslengd nytjahryssna eru eins ólík því sem raunveruleg tilraunadýr mega vænta og verið getur.”
Ísteka telur að atvinnulífið þurfi einfalt og gagnsætt regluverk fremur en sértækar, flóknar aðgerðir sem mismuni atvinnugreinum. Opinber fjárframlög eigi að nýtast til átaksverkefna til skamms tíma en ekki til þess að halda arðbærum atvinnugreinum uppi til lengri tíma.
Jafnframt segir í umsögninni að skýrar leikreglur á vinnumarkaði og aðgengi að menntun á öllum æviskeiðum séu lykilatriði til að auka framleiðni og verðmætasköpun til framtíðar.
„Stjórnvöld eiga að hvetja til arðbærrar og fjölbreyttrar framleiðslu á vörum og þjónustu innanlands. Hvatar ættu að jafnaði að felast í gagnsæju og einföldu regluverki svo að sköpunarkrafturinn geti nýst sem best í það sem mestu máli skiptir. Hverfa skyldi alfarið frá regluverki sem takmarkar samkeppnishæfi landsins. Forðast skyldi sértækar, flóknar og handstýrðar aðgerðir á vinnumarkaði eins og dæmi eru um, en leggja meiri áherslu á að tryggja almenn ákvæði um laun og vinnutíma í viðeigandi og sterkri vinnulöggjöf fyrir vinnumarkaðinn í heild.”
Ísteka nefnir sem dæmi að útflutningstekjur félagsins hafi fimmfaldast frá 2014 og nema tæpum tveimur milljörðum króna á ári.
„Ekki er óraunhæft að álykta að á næstu 10 árum til 2035 geti útflutningsvelta Ísteka aftur fimmfaldast og numið um 10 milljörðum króna. Það er þó að hluta til háð því að stjórnvöld leggi ekki að óþörfu stein í götu félagsins.”