Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq leiddi hækkanir á markaði í dag en gengi félagsins hefur hækkað um 8% það sem af er ári.
Gengi Amaroq hækkaði mest allra skráðra félaga í fyrra en gengið fór upp um 53%. Eftir um 2% hækkun á markaði í dag hefur gengi félagsins hækkað um 58% síðastliðið ár.
Hlutabréf í Ölgerðinni, sem hækkuðu um 46% í fyrra, fóru einnig upp um 2% í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar hefur hækkað um rúm 9% það sem af er ári og hækkað um 53% síðastliðið ár.
Markaðurinn var rauðglóandi um tíuleytið í morgun eftir fyrstu viðskipti dagsins en áætla má að titringur í kjaraviðræðum SA og breiðfylkingar stærstu stéttarfélaga landsins hafi haft þar áhrif.
Gengi helstu hlutabréfa tók þó við sér yfir daginn og tók úrvalsvísitalan OMXI 15 á 1,4% viðsnúning og endaði daginn á 0,7% hækkun.
Festi og Icelandair leiddu lækkanir í Kauphöllinni en gengi beggja félaga fór niður um 1,5%.