Í tilkynningu frá Sæferðum segir að þar sem ekki liggi enn fyrir hvort samningur náist um rekstur nýrrar ferju Sæferða neyðist fyrirtækið til að segja upp ráðningarsamningum við allt starfsfólk fyrirtækisins.

Sæferðir munu sigla á núverandi ferju, Baldri, til 15. október og þá verður sú ferja afhend nýjum eiganda.

„Félaginu þykir afar leitt að þurfa að grípa til þessara uppsagna enda vinnur frábær hópur starfsfólks hjá Sæferðum sem mörg hafa starfað hjá félaginu um langt skeið. Ferjureksturinn er grundvöllurinn fyrir tilvist fyrirtækisins og við höfum enn þá ekkert í hendi um að hann verði áfram hjá okkur. Við höfum upplýst helstu hagsmunaaðila á svæðinu um stöðuna og vonumst til að línur skýrist sem allra fyrst. Við vorum með starfsmannafund fyrr í kvöld þar sem fólk var upplýst um niðurstöðu útboðsins og því tilkynnt um uppsagnirnar. Við vonumst til að flest starfsfólk fái boð um starf á nýju ferjunni, náist samningar um reksturinn við Vegagerðina,“ segir Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Sæferða.

Vegagerðin birti í dag niðurstöður útboðs vegna reksturs nýrrar ferju á Breiðafirði, að nafni Röst, og reyndust Sæferðir í Stykkishólmi eiga eina tilboðið í ferjureksturinn. Hins vegar ríkir enn óvissa um hvort samið verði við Sæferðir um rekstur nýju ferjunnar þar sem tilboð félagsins var yfir kostnaðaráætlun.

Í tilkynningu segir að Sæferðir geri ráð fyrir að í hönd fari samningaviðræður við Vegagerðina um rekstur á Breiðafjarðarferju fyrir árin 2023-2026, með möguleika á framlengingu allt að tvisvar sinnum, eitt ár í senn.