Mikil og þrálát röskun aðfangakeðja vegna heimsfaraldursins hefur verið heimsbyggðinni til trafala síðustu ár og meðal annars flækt viðspyrnuna í kjölfar afléttinga með vöru- og hráefnaskorti og verðhækkunum.

Loksins þegar vonir stóðu til þess að nú færi að horfa til betri vegar í þeim efnum með útbreiðslu bólusetninga og afléttingum sóttvarnaráðstafana víðsvegar um heim skall innrás Rússlands í Úkraínu í síðasta mánuði, og þær viðskiptaþvinganir og óvild sem fylgt hefur í kjölfarið, á milliríkjaviðskiptum af fullum þunga og bættu gráu ofan á svart.

Sjá einnig: Stýrivextir áfram lykilvopnið

Umræða sem þegar var hafin um aukna áherslu á öryggi og áreiðanleika aðfangakeðja og þar með framleiðsluferla verður því sífellt háværari, en slík áherslubreyting gæti haft mikil og víðtæk áhrif á efnahagsskipan Vesturlanda að sögn Ásgeirs.

„Ég held að við munum sjá framleiðslu á Vesturlöndum örvast. Áherslan síðustu áratugi hefur öll verið á að lágmarka framleiðslukostnað með því að nýta sér alþjóðavæðingu og framleiða hluti á þeim stöðum í heiminum þar sem hann er lægstur. Núna er áherslan að færast yfir í öryggi, og öryggi kostar.“

Í því felist að framleiðendur muni í meira mæli velja aðföng út frá því hvaðan þau koma, og jafnvel framleiða þau í meira mæli sjálf, til að tryggja afhendingaröryggi. Horft verði til áhættuþátta þess lands sem viðkomandi aðföng eru framleidd í, ekki síst pólitísks öryggis.

Almenna reglan er hins vegar sú að í friðsamari, stöðugri og öruggari löndum er efnisleg velmegun meiri og launakostnaður hærri, auk þess sem ráðast mun þurfa í mikla uppbyggingu á framleiðslugetu á nýjum stöðum. Framleiðslukostnaður mun því hækka og valda enn frekari verðhækkunum á Vesturlöndum. Öryggið mun kosta.

Nánar er rætt við Ásgeir í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .